Járnblendiverksmiðja í Hvalfirði
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Þetta mál er að ýmsu leyti ágætismál og gefur eiginlega tilefni til þess að opna hér umræðu um það með hvaða hætti við getum örvað þátttöku ekki aðeins útlendinga í uppbyggingu íslensks atvinnulífs heldur Íslendinga sjálfra. Það er góðra gjalda vert og ágætt og út af fyrir sig er það ánægjulegt að Alþb. skuli vera orðið svona jákvætt gagnvart því að erlendir aðilar komi hér eitthvað til skjalanna í sambandi við nýjan iðnað og ný atvinnutækifæri og að jafnvel Alþb. skuli skrifa hér upp á óútfylltan víxil um það með hvaða hætti fyrirtæki, sem er að töluverðu leyti í eigu erlendra aðila, megi fara inn í íslenskt fyrirtæki. Þó að ég vilji hafa ákveðinn fyrirvara á því, þá á maður yfirleitt ekki að gefa út óútfyllta víxla eða ávísanir heldur verður maður að gera sér grein fyrir því hvort maður á innstæðu fyrir því sem verið er að gera og með hvaða hætti það á að hafa áhrif á eigin hag og stöðu.
    Þess vegna vil ég nú segja það og óska eftir því við hæstv. iðnrh. að hann upplýsi mig og okkur þingmenn hér m.a. um það hverjir séu helstu hluthafar á bak við Elkem, norska fyrirtækið og Sumitomo. Þar á ég við það hvort hann gæti upplýst okkur hv. þm. um það hverjir hafi eignarhald á þessum fyrirtækjum. Ég verð að lýsa vankunnáttu minni í þeim efnum. Það væri mjög fróðlegt.
    Við þekkjum það t.d. erlendis, virðulegi forseti, að þar sem stórfyrirtæki eru á ferðinni ganga hlutabréf kaupum og sölum á opnum markaði. Það er viðurkennt og staðreynd, bæði í Vestur-Evrópu og Norður-Ameríku, að meðal stærstu viðskiptavina á hlutabréfamörkuðum helstu iðnríkja heims eru t.d. tryggingafélög, einkabankar, fjárfestingarfélög, verðbréfasjóðir og lífeyrissjóðir. Ég staldra nokkuð við í upptalningunni vegna þess að mér finnst mjög skorta á það í umræðu hér á Íslandi þegar verið er að tala um það að efla og örva þátttöku aðila í atvinnulífinu, hvað við hv. þm. höfum eiginlega verið tómlátir eða afskiptalitir um það að örva hliðstæða aðila til þátttöku í íslensku atvinnulífi, þ.e. íslenska aðila sem hafa yfir fjármagni að ráða, náttúrlega með þeim takmörkunum sem okkar litla efnahagslíf setur okkur, með sama hætti og þessi erlendu fyrirtæki hafa hvert á sínu sviði í sínum heimalöndum og einnig sem fjölþjóðafyrirtæki yfir landamæri.
    Þess vegna þætti mér vænt um það ef hæstv. ráðherra hefði einhverjar upplýsingar um það hvernig samsetning hluthafa kynni að vera í þessum tveim stóru fyrirtækjum erlendu, sem eru hluthafar í Járnblendiverksmiðjunni. Ég segi það vegna þess að mér finnst vel koma til greina að við hv. þm. skoðum það og eigum frumkvæði að því að örva íslenska aðila, íslenska fjármagnsaðila til aukinnar þátttöku og sköpum þau skilyrði til þess að gera það með hvatningu og jafnvel breytingum á lögum og reglugerðum að þeir gætu t.d. komið með sitt fjármagn inn í þessi stóru fyrirtæki. Ég á t.d. við lífeyrissjóðina, sem mér finnst að þurfi endilega að koma inn, sérstaklega í sambandi við stórfyrirtæki og

uppbyggingu hliðstæða því og hugsað er með því frv. sem hér er lagt fram, nýsköpun í íslensku atvinnulífi.
    Í því sambandi þætti mér einnig koma til athugunar, og ég vildi gjarnan heyra skoðun hæstv. ráðherra á því, einmitt núna í sambandi við þetta tiltekna mál að ríkisstjórnin athugaði það hvort ekki væri hægt að selja eða bjóða til sölu eitthvað af því hlutafé sem ríkið á í þessu fyrirtæki, hinu Íslenska járnblendifélagi. Ég held að það væri mjög áhugavert að setja eitthvað af hlutabréfum ríkisins inn á frjálsan markað og gera þær ráðstafanir að þessir fjármagnsaðilar sem ég tiltók kæmu til skjalanna. Ég segi það vegna þess að með því mundum við hugsanlega skapa íslenskum aðilum sömu möguleika og ég held að mjög margir hluthafar í þessum erlendu fyrirtækjum sem hér hafa verið nefnd hafi í sínum eigin löndum. Ég hef ástæðu til að halda það að í öðru hvoru þessara fyrirtækja komi t.d. lífeyrissjóðir og fjárfestingarfélög mjög sterkt inn í myndina sem eignaraðilar að þessum fyrirtækjum. En hæstv. ráðherra kann hugsanlega að geta upplýst okkur frekar um það.
    Ég vil síðan að lokum segja það sama og hv. þm. Halldór Blöndal að það ber að fagna öllu sem gert er á betri veg til að efla íslenskt atvinnulíf og ég vænti þess að þetta frv. og sú hugsun sem er á bak við það leiði til þess.