Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um heimild fyrir ríkisstjórnina til þess að leyfa Köfunarstöðinni hf., Dýpkunarfélaginu hf., Slysavarnafélagi Íslands og Íslenska úthafsútgerðarfélaginu hf. innflutning á skipum. Frv. er fimm greinar og fjallar hver greinin um sig um einn þeirra aðila sem ég las upp í heiti frv. og heimilar undanþágu til handa þessum aðilum til að flytja inn skip sem eldri eru en 12 ára en þannig háttar til að í lögum um eftirlit með skipum, lögum nr. 51/1987 er lagt bann við því að flytja til landsins skip eldri en 12 ára, sbr. 2. mgr. 21. gr. þeirra laga.
    Það hefur um langt skeið verið ákveðin stefna íslenskra stjórnvalda að heimila ekki innflutning á skipum til almennra og venjulegra nota sem ekki falla undir þessi lagaákvæði en hins vegar hafa verið gerðar undanþágur þegar í hlut eiga sérhæfð skip eða til mjög sérstakra nota og hefur af og til á undanförnum árum verið aflað heimilda með lögum til þess að víkja frá greindum ákvæðum þessara laga.
    Ég hygg að í öllum þeim tilvikum sem hér eru nefnd verði ekki um það deilt að í hlut eiga í raun hvort tveggja í senn sérhæfð skip og sérhæfð not. Þannig er það að sjálfsögðu með dýpkunarpramma fyrir Köfunarstöðina, dýpkunarpramma fyrir Dýpkunarfélagið og hið sérhæfða björgunarskip fyrir Slysavarnafélag Íslands sem Slysavarnafélagið hefur nýverið keypt af systurfélagi sínu í Bretlandi og fengið við mjög hagstæðum kjörum.
    4. gr. er kannski nokkurs annars eðlis, en þar er um að ræða að heimilt verði að skrá á Íslandi skip sem Íslenska úthafsútgerðarfélagið hf. kaupir eða leigir, verksmiðjuskip eða móðurskip, þó eldra sé en 12 ára, en þar er skýrt tekið fram að þó heimiluð verði skráning þessara skipa á Íslandi muni þau aldrei fá hvorki veiðiheimildir né vinnsluleyfi í íslenskri fiskveiðilögsögu. Þannig háttar til að skipaútgerð þessi, ef af verður, er ætluð til að nýta veiðiheimildir sem Íslendingar hafa samkvæmt samningi við Bandaríkjamenn sem kominn er nokkuð til ára sinna en hefur ekki fram að þessu verið nýttur þrátt fyrir einar tvær tilraunir í þá veru. Það var eindregið álit bæði hæstv. sjútvrh. og hæstv. utanrrh. að mjög æskilegt væri ef takast mætti að stuðla að því að þessi samningur yrði hafinn og nýttur og meðmæli komu frá báðum ráðuneytunum sem ég áðan nefndi um það að Íslenska úthafsútgerðarfélagið yrði stutt til þess að reyna þessa útgerð og með þeim hætti sem þá er hér gert. Jafnframt komu um það ábendingar frá sjútvrn. að rétt væri að hafa þá ákvæði í þeim hinum sömu lögum þar sem aflað væri heimilda til skráningar skipa Úthafsútgerðarfélagsins þar sem tekið væri fram og tekin af öll tvímæli um að þó þessi skip yrðu hér skráð fengju þau hvorki veiði- né vinnsluheimildir í íslenskri fiskveiðilögsögu og er svo gert, sbr. þriðju og síðustu mgr. 4. gr. laganna.
    Ég held ég hafi þá ekki fleiri orðum við þetta að bæta, herra forseti, en legg til að málinu verði vísað

til hv. samgn. að lokinni þessari umræðu.