Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Það var út af síðustu orðum hv. 4. þm. Vesturl. Skúla Alexanderssonar sem ég bað um orðið. Ég er honum ekki sammála í afstöðu hans til 4. gr. þessa lagafrv. Ég lýsi því hér með yfir að ég styð eindregið 4. gr. eins og hún er fram sett í frv. Ég tel það bæði virðingarvert og mjög til fyrirmyndar að til skuli vera íslenskir menn, íslenskir aðilar, sem leita fyrir sér á erlendum fiskimiðum til þess að skapa auð og verðmæti fyrir íslenska þjóð. Það er hér um það að ræða í sambandi við þetta mál að Íslenska úthafsútgerðarfélagið hf. hyggst kaupa eða leigja meiri háttar fiskiskip eða réttara sagt verksmiðjuskip til þess að vinna afla úti fyrir ströndum Alaska í Norður-Ameríku. Þetta hefur áður verið reynt eins og fram kom í ræðu hæstv. samgrh. en tókst ekki sem skyldi en nú eru komnir nýir aðilar til skjalanna sem eru að reyna að hefja þetta verk að nýju með það í huga auðvitað að framleiða vörur sem væntanlega verða þá seldar í Bandaríkjunum eða Vestur-Evrópu eða Japan þar sem markaðir kunna að vera fyrir þær.
    Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, undirstrika það að hið háa Alþingi á ekki að gera slíkum mönnum erfiðara fyrir heldur er það skylda okkar þingmanna, eins og fram kom í ræðu hæstv. samgrh., að auðvelda Íslendingum það að takast á við ný verkefni, m.a. þeirrar tegundar sem fram kemur í frv. Ég vil þess vegna, virðulegi forseti, lýsa yfir stuðningi við frv. og alveg sérstaklega 4. gr. þess.