Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég get vel skilið og er í raun sammála því, sem hér kom fram í máli hv. 4. þm. Vesturl., að þetta er nokkuð óvenjuleg lagasmíð sem hér er á ferðinni. Það er fremur óvenjulegt að flytja þurfi sérstakt lagafrv. til að veita undanþágur eða veita innflutningsheimildir af þessu tagi. En ástæðan er sú að í lögunum um eftirlit með skipum, lögum nr. 51/1987, eru alls engar undanþáguheimildir þannig að það er beinlínis óheimilt að veita undanþágu frá þeim lögum nema afla þeirra sérstaklega með öðrum lagaheimildum. Þá liggur auðvitað beint við að spyrja eins og hv. 4. þm. Vesturl. gerði: Af hverju er þá ekki þeim lögum breytt og settar þar inn heimildir til að undanþiggja ákveðin tilvik? Það er út af fyrir sig góð spurning en ég bendi á að þau lög eru ekki eldri en frá 1987 og á árunum þar á undan var hvað eftir annað búið að veita heimildir með sérstökum lögum. Ég læt mér detta í hug, án þess að hafa kannski kannað það til hlítar, að ástæðan sé sú að ýmsir aðilar, þar á meðal siglingamálastjóri, eru eindregið þeirrar skoðunar að ekki beri að slaka á lagaákvæðum að þessu leyti og það beri að halda þeim sem alveg sérstökum undantekningartilvikum, þannig að út af fyrir sig má kannski hugsa það sem vissa vörn fyrir siglingamálayfirvöld og samgrn. að lögin séu afdráttarlaus og engin undanþáguheimildarákvæði séu þar fyrir hendi og það sé því alveg ljóst og liggi fyrir að menn geti ekki treyst á undanþágur. Þannig er frá þessum hlutum gengið eins og það er í dag.
    Ég gleymdi víst að geta þess en að sjálfsögðu þurfa öll þessi skip sem hér um ræðir að uppfylla að öllu leyti íslenskar öryggisreglur og Siglingamálastofnun gengur úr skugga um það áður en bráðabirgðaheimild er veitt fyrir innflutningi að svo sé.
    Varðandi 4. gr. hef ég ekki miklu við það að bæta sem ég sagði þar í upphafi annað en því að þannig háttar til að skilyrði þess að heimildir okkar til fiskveiði og fiskvinnslu í bandarísku fiskveiðilögsögunni á grundvelli áðurnefnds samnings eru að skipin séu skrásett á Íslandi og sigli undir íslenskum fána. Það er beinlínis sett inn í þann samning til þess að ekkert sé reynt að fara í kringum hann. Það er því alveg ljóst að við munum aldrei geta nýtt okkur þessi heimildarákvæði og þennan samning nema með skipum sem bæði eru skráð hér og sigla undir íslenskum fána.
    Ég vek svo athygli á því að það er ekki einungis sagt í lagatextanum, 3. mgr. 4. gr., að skipum sem skráð verði samkvæmt heimild í 1. og 2. mgr. sé óheimilt að stunda fiskveiðar eða vinnslu sjávarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu, heldur segir og í umsögn um 4. gr., sem samkvæmt hefðum mun hafa lagaskýringargildi komi til slíks síðar á ævi frv. eða laganna, beinlínis: ,,Heimildir samkvæmt þessari grein eru bundnar því skilyrði að skipin muni ekki undir neinum kringumstæðum fá leyfi til veiða eða til vinnslu sjávarafla í íslenskri fiskveiðilögsögu.`` Þannig

að þó að menn kunni að hafa af því áhyggjur að einhvern tímann í framtíðinni geti komið til þess að menn reyni að knýja á um fiskveiðiheimildir fyrir þessi skip innan íslenskrar lögsögu þá eru lögin hvað þetta snertir eins ótvíræð og hugsast getur.