Umferðarlög
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það var ekki beiðni frá þingflokksformanni Sjálfstfl. Það var beiðni frá einum af þingmönnum efri deildar sem ætlar að tala hér sem þingmaður og biður um þetta í þeim krafti að hann sé þingmaður og hafi málfrelsi hér í deildinni, sé reiðubúinn til þess að tala um málið í kvöld ef hæstv. forseti óskar, en fer fram á það allra vinsamlegast að kvöldmatartími sé virtur. Það hefur verið beðist afsökunar hér af ráðherrum æ ofan í æ út af því að þeir hafa verið búnir að ráðstafa sér, og umræður hafa ekki getað farið fram með eðlilegum hætti um hin mikilsverðustu mál af því að ráðherrar hafa ráðstafað sér. Svo ef þingmaður fer fram á það að hann fái að taka þátt í umræðum, utan matmálstíma, eftir að fundur hefur staðið í 5 klst. og 20 mín. talar hæstv. forseti eins og ég sé að biðja um það sem formaður þingflokks Sjálfstfl. Af hverju segir forseti ,,formaður þingflokks Sjálfstfl.``? Hvers vegna notar hann þau orð? Ég er ekki að fara fram á þetta sem slíkur. Ég er að fara fram á þetta sem þingmaður þessarar deildar.