Friðjón Þórðarson:
    Herra forseti. Ég ætti fyrstur manna að fagna því að fá tækifæri til þess að taka þátt í því með öðrum góðum mönnum hér á hv. Alþingi að afnema síðustu leifar einveldisins. Að sjálfsögðu get ég fagnað því að þessi mál eru rædd því þau eru mjög mikilvæg. Ég tel alveg sjálfsagt að hver einasti alþingismaður reyni að gera sér fulla grein fyrir því hvað hér er á ferðinni og auðvitað hver þegn þjóðfélagsins því að hér er verið að ræða um aðskilnað á dómsvaldi og umboðsvaldi í héraði.
    Þetta frv. er ekki alveg nýtt fyrir okkur. Ég sé ástæðu til þess eigi að síður nú við 1. umr. í þessari hv. deild að segja um þetta mál nokkur orð af því að ég tel að það sé svo stórt og þurfi svo góða umfjöllun og ítarlega. Og ég tel alveg sjálfsagt að menn gefi sér góðan tíma til að hugleiða þessi mál.
    Þegar frv. var lagt fram í fyrstu þá fylgdi því langur og ítarlegur sögulegur kafli þar sem sagði með þessum orðum ,,eins og rakið er í hinum sögulega kafla athugasemda við frumvarpið, var umboðsvald og dómsvald í héraði sameinað á einni hendi á tímum einveldis Danakonunga. En eftir að einveldi leið undir lok voru þessir þættir greindir sundur í ríki þeirra á nýjan leik, nema hér á landi þar sem enn má finna leifar þess``. Nú er viðfangsefnið að skoða þessar leifar og afnema þær, uppræta þær. Sameinað umboðsvald og dómsvald á einni hendi þykir vera andstætt meginreglum í stjórnskipan lýðræðisþjóðanna beggja vegna Atlantshafsins. Og eins og segir hér í grg.: ,,Nú er fjallað um það í mannréttindanefnd Evrópuráðsins hvort réttarfar okkar Íslendinga sé í samræmi eða andstöðu við ákvæði Mannréttindasáttmála Evrópu``. Og ekki síst af þessari ástæðu eru full rök fyrir því að þetta frv. er nú hér á dagskrá.
    Auðvitað held ég að allir Íslendingar aðhyllist í meginatriðum kenninguna um þrískiptingu valdsins, sem er nú raunar allgömul orðin, og á henni er byggt í stjórnarskrá okkar. En þá er spurning: Erum við skemmra á veg komin hér á Íslandi að framfylgja þessari reglu heldur en gerist og gengur meðal annarra þjóða sem hafa undirritað Mannréttindasáttmála Evrópu?
    Ég tel að við þurfum ekki að skammast okkar fyrir þá þróun sem orðið hefur hér á landi í þessum efnum. Við getum fyllilega borið okkur saman við aðrar aðildarþjóðir hvað það snertir að fullnægja réttlætinu. Að vísu má segja að málin hafi þróast með nokkuð öðrum hætti hér á Íslandi, en það er ekki óeðlilegt. Ég tel fullgild rök fyrir því að mál þróist lítið eitt á annan veg hér í okkar fámenna landi sem hefur svo sérstakt yfirbragð og þjóðhætti að mörgu leyti miðað við það sem gerist og gengur meðal milljónaþjóða. Ég ætla að benda á það t.d. að hér, þar sem við erum svona fá, er það ekki óeðlilegt að hver og einn okkar þurfi e.t.v. að hafa fleiri en eitt hlutverk á hendi. Og sannleikurinn er sá að þetta kemur kannski óvart fram í umræðum hér á hv. Alþingi. Ég hef leyft mér að taka með mér hér upp í ræðustólinn umræður sem

urðu í vetur þegar þetta mál var lagt fram í hv. efri deild, flutt um það framsöguræða og málið nokkuð rætt. Ég vona að hv. forseti leyfi mér að vitna ögn í ummæli þeirra manna sem þá tóku til máls til þess að vekja athygli á því að við þurfum að skoða þetta mál vel og vandlega.
    Þegar málið um aðskilnað dómsvalds og umboðsvalds í héraði er lagt fram í hv. Ed., þá talar þar hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson, hæstv. sjávarútvegsráðherra. Þetta dæmi tilgreini ég síður en svo hæstv. ráðherra til hnjóðs. Síður en svo. En þetta sýnir að jafnvel ráðherrar í ríkisstjórn Íslands eru ekki einskorðaðir við eitt hlutverk frekar en kannski sýslumenn hafa verið á umliðnum árum að því er sumum hefur fundist. Já, það er hæstv. sjútvrh., Halldór Ásgrímsson, sem fylgir frv. úr hlaði í efri deild.
    Hitt er svo annað mál, og það er kannski önnur ástæða þess að ég tók þetta hefti af Alþingistíðindum með mér hingað í ræðustólinn, að það er mín skoðun að Alþingi eigi að vera í einni málstofu. Það er oft svo að það fer margt fram hjá okkur sem skipum neðri deild sem gerist í efri deild. Við týnum málum næstum sem fara héðan og tökum ekki eftir þeim, þau rekur ekki á okkar fjörur fyrr en þau koma fullsköpuð eftir meðferð í efri deild, og þá er kannski skammur tími til þess að fjalla um þau hér í þessari málstofu.
    Svo er það önnur saga um þetta mál sem nú er á döfinni úti í Strasbourg. Það vita allir hver var í raun og veru, a.m.k. meðfram, kveikjan að því að þessum málum var hreyft með svona eftirminnilegum hætti um þessar mundir hér á hv. Alþingi. Það er, eins og menn kalla, mál hjólreiðamannsins á Akureyri. En ég vil aðeins benda á það að þessi ágæti þegn okkar þjóðfélags fékk að ég held fullgilda meðferð sinna mála bæði fyrir undirrétti og Hæstarétti. Hæstiréttur Íslands hefur starfað frá 1920. Þangað hafa allir getað skotið málum sínum. Ég álít að við getum verið fullsæmd af því að fá úrskurð Hæstaréttar Íslands í okkar málum, smáum og stórum, en kann heldur illa við þegar svona mál eru borin á torg erlendis til þess að reyna að gera íslenskt réttarfar tortryggilegt í augum annarra þjóða.
    Hitt er svo annað mál að á þessari öld hefur margt þróast í þessum málum í okkar ágæta landi. Það segir hér á einum stað í ræðum manna: ,,Þetta mál hefur
vakað og síðustu 70 árin hafa öðru hvoru heyrst raddir um að bæði væri nauðsynlegt og tímabært að skilja dómsvaldið algjörlega frá stjórnsýslunni og nokkur skref hafa verið tekin í þá átt. Þannig beitti Bjarni Benediktsson, þáv. dómsrh., sér fyrir því árið 1961 að ákæruvaldið var falið sjálfstæðu ríkissaksóknaraembætti en ákæruvaldið hafði áður verið í dómsmrn.`` Ég get ekki að því gert, af því að það eru sérstaklega tveir lögspekingar og ágætir alþingismenn nefndir á nafn í umræðunum í Ed., ráðherrarnir Bjarni Benediktsson og Ólafur Jóhannesson, og þeirra lofsamlega getið að verðleikum að spyrja: Hvernig gátu þessir ágætu menn, sem lengi voru oddvitar okkar þjóðar, látið það viðgangast að

þessar leifar einveldisins væru látnar óáreittar öll þau ár sem þeir sátu við stjórnvölinn?
    Við þurfum ekki að undrast yfir því að framþróun gangi stundum hægt í þessum efnum. Það er full ástæða til þess að slík mál, svo sem réttarfar, þróist hægt, þau séu ekki háð sífelldum breytingum. En óneitanlega tekur þróun sumra atriða í þessum málum langan tíma. Ég get bent á það hér að því er varðar ákæruvaldið að ég minnist þess að árið 1934 þegar Gunnar Thoroddsen kom ungur maður inn á þing flutti hann jómfrúræðu sína um skipan opinbers ákæranda. Það var 1934. Það var fyrst 1961 að ákæruvaldið var falið sérstökum óháðum embættismanni. Má þó merkilegt heita að það skyldi ekki gert fyrr þar sem það hlaut að vera mjög gagnrýni vert að pólitískur ráðherra skyldi hafa á hendi æðsta ákæruvald í opinberum málum hjá þjóðinni.
    Það þýðir ekki að hafa uppi mikla gagnrýni nema benda á aðrar leiðir og þó að ég hafi þessi gagnrýniorð í frammi fagna ég því að þessi mál skuli vera rædd. Það er að sjálfsögðu margt gott við það frv. sem hér liggur fyrir eftir athugun svo margra lærðra manna. En það er eitt fyrir sig að við teljum ýmsir að aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði sé þegar kominn á meðal þjóðarinnar að mjög miklu leyti. Það er staðreynd að utan Reykjavíkur hefur frá 1972 verið komið á fót stöðu héraðsdómara við sex stærstu sýslumanns- og fógetaembætti á landinu, þ.e. þar sem þéttbýlið er mest og fólkið flest er þessi skipan komin á. Og það eru ýmsir, þar á meðal ég, sem vilja láta skoða þann möguleika að útfæra þessa reglu, útfæra þessa aðferð um héraðsdómara um allt land. Ef það yrði gert þyrfti að vísu að bæta við nokkrum héraðsdómurum. En þá væri líka að margra mati kominn á fullur og nægilegur aðskilnaður dómsvalds og umboðsvalds í héraði hér á landi.
    En meginefni frv. þess sem hér er til umræðu er að settir verði á fót átta héraðsdómstólar er fari með dómstörf jafnt í einkamálum og opinberum málum. Þetta er út af fyrir sig á margan hátt ágætt, en það hlýtur að kosta nokkurt fé. Við höfum kannski ráð á þessu. Þó heyrist á ýmsum um þessar mundir að ekki veiti af fé til ýmissa verkefna sem aðkallandi eru.
    Eitt er enn, að menn eru ekki sammála um hvort sú breyting sem hér er fyrirhuguð muni styrkja sýslumannsembættin eða ekki. Hér segir hæstv. ráðherra í máli sínu í Ed., með leyfi forseta: ,,Fleiri breytingar eru á döfinni sem miða að því að auka verkefni sýslumannsembætta og gera veg og virðingu þeirra enn meiri í framtíðinni en nú er.`` Ber að sjálfsögðu að fagna því ef þessari stefnu verður fylgt eftir.
    En til þess að mál mitt verði ekki allt of langt ætla ég aðeins að drepa á nokkur atriði enn í þeim ræðum sem fluttar voru um málið við 1. umr. í Ed. eins og ég sagði áðan.
    Dómsmrn. hefur áætlað að aukakostnaður vegna frv. verði um 35 millj. kr. á ári miðað við verðlag á

sl. vori. Þetta telja margir allt of lágt áætlað. Af tilviljun heyrði ég í morgunútvarpinu í morgun að talað var um að reisa íbúðarhús, að vísu fyrir einn allra fremsta embættismann þjóðarinnar. Það er áætlað að það kosti eitt sér 40--50 milljónir. En hæstv. ráðherra tók líka fram að það bæri að fjalla um þetta mál á þann veg að ná sem mestri sátt um nauðsynlegar breytingar og í því efni er ég honum algjörlega sammála.
    Hér segir hæstv. ráðherra á einum stað, með leyfi forseta: ,,Réttarfar okkar er eins og áður segir undir nokkurri smásjá samstarfsþjóða okkar í Evrópuráðinu og miklu skiptir að fjarlægja hinn minnsta skugga sem á það kann að falla.`` Þetta er alveg rétt, en skyldi nú þessi hugsunarháttur ríkja í öllum málum? Það er a.m.k. ekki fullt samkomulag um það. Ég tel að við þurfum alls ekki að vera svo viðkvæmir fyrir því sem þeir kunna að segja þarna úti í Strasbourg. Við getum alveg staðið á okkar rétti hvenær sem er.
    Hér tekur til máls hv. 11. þm. Reykv. og hann segir, með leyfi forseta: ,,Varðandi þau embætti sem hefur verið fallist á að verði sérstök sýslumannsembætti en í upphaflegu tillögunum var gert ráð fyrir að ættu ekki að vera sérstök sýslumannsembætti er ég þeirrar skoðunar að þau mættu missa sig.``
    Jæja, það eru þá einhverjir af talsmönnum þessa frv. sem telja að a.m.k. einhver af sýslumannsembættunum megi missa sig. En þó telur þessi sami ræðumaður að þegar búið sé að taka eins mikið vald frá sýslumönnum og ráð er fyrir gert í þessu frv. verði sýslumannsstaðan ekki eins eftirsóknarverð og áður var.
    Hv. 3. þm. Vesturl., sem var formaður milliþinganefndarinnar sem hæstv. ráðherra gat um áðan, segir m.a. í ræðu sinni: ,,Það vill svo til að sá sem þetta mælir var formaður þeirrar nefndar.`` Og hann getur þess að þar ,,höfum við tveir nefndarmenn haft sérstöðu, ég og hv. 1. þm. Norðurl. v. Páll Pétursson``, en þeir hafi þó verið fimm í sjö manna nefnd sem hafi fallist á frv. --- Bætir svo við: ,,Ég hygg þó að um þetta mál sé miklu breiðari samstaða í þinginu en niðurstaða nefndarinnar í raun gefur til kynna.``
    Þá tekur til máls hv. 8. þm. Reykv. og ég ætla að leyfa mér að hafa yfir tvær, þrjár setningar af hans ræðu því þar kveður við nokkuð annan tón. Hann segir: ,,Ég tek ekki mjög nærri mér þó að einhverjir svokallaðir lögspekingar úti í heimi einhvers staðar ætli að fara að halda því fram að réttarríki sé ekki á Íslandi og það sé meira í þeirra ríkjum.`` --- Hann heldur áfram: ,,Algjör aðskilnaður löggjafarvalds, dómsvalds og framkvæmdarvalds, sem er göfug hugsjón, verður held ég aldrei.`` --- Og loks segir hann: ,,Við skulum ekki vera þau börn að halda að við séum að leysa einhverja lífsgátu með samþykkt þessa frv., að með því sé búið að bjarga réttarfari á Íslandi og gera það kannski göfugast í veröldinni og dómaskipan og meðferð dómsmála.``
    Hv. 6. þm. Vesturl. segir, fulltrúi Kvennalistans:

,,Við kvennalistakonur teljum rétt og nauðsynlegt að gera þá breytingu sem hér er verið að leggja til.``
    Svo kemur hæstv. sjútvrh. aftur inn í umræðuna og þar minnist hann á að auðvitað sé ekki aðalatriði að málinu ljúki á þessu þingi, þar er hann samkvæmur sjálfum sér, og eins og hann sagði áður, að það sé mikils um vert að fá sættir og samkomulag sem víðtækast þegar þessi breyting verður gerð. Hann tekur réttilega fram að þær breytingar á löggjöf sem verða til að taka störf frá sýslumönnum og fela þau öðrum í hendur veiki sýslumannsembættin nema annað komi á móti.
    Þetta stóra mál fer væntanlega eftir þessa umræðu til allshn. þessarar hv. deildar og gefst þá færi á að skoða það nánar. En ég vil að lokum benda á að þetta mál hefur verið í allan vetur í Ed., en nú skilst mér, ef miðað er við að þingi ljúki 6. maí, að þá eigi Nd. að afgreiða það á þremur vikum. Þetta er afskaplega óeðlilegt, að þriðjungur þingmanna skoði málið, við skulum segja í krók og kring, mánuðum saman en *y2/3*y þingmanna eigi svo að fá þrjár vikur til að ljúka þessu ætlunarverki. Það kynni því að vera freistandi að taka undir orð 8. þm. Reykv., sem hann viðhafði í þeirri umræðu sem ég hef getið um, að ,,það kynni að fara svo að ekki yrði heldur hægt að afgreiða það á þessu vori, þ.e. þetta frv., og það er bættur skaðinn því að við getum alveg beðið til næsta þings þess vegna``, segir hv. 8. þm. Reykv.
    Ein er sú tillaga sem gerð var í Ed. undir lok meðferðar frv. þar. Það var frestað gildistöku þess til 1. júlí 1992. Það er góðra gjalda vert að setja lög og ákveða svo hæfilegan umþóttunartíma eða undirbúningstíma þess að þeim sé hrint í framkvæmd. Ég tel samt sem áður svona langan frest vera óeðlilegan. Það er óeðlilegt að þetta þing setji lög sem stofna til svona mikilla breytinga og aukinna ríkisútgjalda en svo eigi þingmenn, kannski allt aðrir þingmenn, eftir nokkur ár að bera baggana af fjárútlátum og framkvæmd laganna. Þess vegna er ég ekki eins fagnandi yfir þessu ákvæði og margir eru og virðast telja þetta stórsigur í málinu.
    En lokaorð mín eru þau að þetta mál, og vil ég endurtaka það sem ég sagði raunar í upphafi, er svo mikilvægt að ég skora á alla alþingismenn að gefa því góðan gaum og hugsa vel sitt ráð áður en það verður afgreitt á þessu vori. Málið er sannarlega svo stórt að það er ástæða til að halda áfram að fjalla um það. Að mínum dómi held ég að það hefði gott af því að bíða fram á næsta haustþing.