Pálmi Jónsson:
    Herra forseti. Ég vil láta þess getið í upphafi þeirra orða sem ég mæli hér að ég hef ekki skoðað frv. ákaflega vandlega og hvergi nærri því með sama hætti og sá hv. þm. sem var að ljúka máli sínu, hv. 2. þm. Vesturl. Ég vil hins vegar segja um það örfá orð og ekki síst með tilliti til þess að ég hef á stundum í umræðum á hinu háa Alþingi, t.d. í umræðum um fjárlög, vakið á því athygli að Alþingi og alþingismenn eru furðu fúsir til að taka ákvarðanir, afgreiða lagabálka og binda í ákvarðanir fjárútlát sem við stöndum síðan frammi fyrir að standa við þegar kemur að afgreiðslu fjárlaga. Þetta hefur gengið svo langt, eins og öllum hv. alþm. er kunnugt, að Alþingi sjálft hefur síðan orðið að grípa til þess að skerða lög sem það hefur sett og kosta útgjöld í mörg undanfarin ár með sérstökum ákvæðum í lánsfjárlögum.
    Ég hef býsna mikla varúð á mér í þeim málum sem sýnilega hafa í för með sér mikinn kostnað þegar verið er að setja upp nýtt kerfi í þjóðfélaginu, nýtt kerfi sem hefur í för með sér kostnað sem við höfum ekki áður þurft að standa straum af. Svo hygg ég að sé um það mál sem hér er á ferðinni. Hér er verið að setja á nýtt kerfi héraðsdómstóla, átta nýja héraðsdómstóla, sagði hv. 2. þm. Vesturl., og er ljóst að það kerfi hlýtur að kosta mikið fé. Ég tók eftir því að hæstv. ráðherra sagði þegar hann mælti fyrir frv. að það væri áætlað að kostnaðarauki af þessu frv. væri um 35 millj. kr. á ári. Þetta hafa tveir hv. alþm. á undan mér tekið upp og talið fjarstæðu og ég hlýt að slást í för með þeim og segja að það er furðulegt að hæstv. ráðherra, sem ég hafði ætlað grandvaran mann, skuli láta sér detta í hug að nefna slíkar tölur. Ætla má að kostnaður kannski við eitt slíkra embætta væri af þessari stærð fyrir utan stofnkostnað sem kemur á öll þessi embætti, stofnkostnað sem kannski væri ekki minna en tíföld eða fimmtánföld sú fjárhæð sem hér er nefnd sem árlegur kostnaður.
    Ég held að það sé alveg óhjákvæmilegt að krefjast þess að hæstv. ráðherra hlutist til um að frv. fylgi, svo sem lög kveða á um, kostnaðaráætlun, bæði yfir stofnkostnað af þessu kerfi og þessum nýju embættum og eins hvaða kostnaður fylgir rekstri þessa embættismannakerfis ef á laggir verður sett.
    Það ætti ekki að þurfa að minna hæstv. ráðherra, sem er hér í hliðarsal, á að það er lögbundið að frv. sem lögð eru fyrir Alþingi fylgi kostnaðaráætlun, úttekt, sem gerð er af Fjárlaga- og hagsýslustofnun, á því hvaða aukinn kostnaður fylgir þeirri lagasetningu sem hæstv. ráðherra eða aðrir eru að mæla fyrir.
    Mér þykir leitt að verða að segja að hæstv. ráðherra hefur vanrækt að uppfylla þessa lagaskyldu og ætti ekki að þurfa að minna hann á, sem ég held að ég muni rétt, að þessi lagaákvæði er að finna í lögum nr. 13/1979 sem kennd eru við Ólaf heitinn Jóhannesson.
    Ég held að það sé ástæða til að vekja á þessu athygli og krefjast þess að þessi lagaskylda sé virt. Það er sannarlega hart við að búa og mætti múgamanni þykja einkennilegt þegar það sannast að

hæstv. ráðherrar og sumir hv. alþm. sinna því ekki sjálfir hér á hinu háa Alþingi að uppfylla slíka lagaskyldu. Það mun ýmsum múgamanni þykja einkennilega að verki staðið. Ég tek því undir það, sem hv. þm. Kristín Halldórsdóttir sagði um þetta mál, að þetta verður vitaskuld að liggja fyrir í þingnefnd. En ég get ekki látið hjá líða að finna sterklega að því að það skuli ekki hafa verið gert, því að ég finn ekki greinargerð Fjárlaga- og hagsýslustofnunar í fylgiskjölum með þessu frv., eins og lögum samkvæmt er skylt. Þetta er vitaskuld ekki við hæfi.
    Ég ætla ekki að fara um þessi efni miklu fleiri orðum annað en ítreka enn að hér er vitaskuld verið að setja á laggir kerfi sem felur í sér mikinn nýjan kostnað og þegar þannig er að verki staðið ættu menn að muna eftir því að það þarf peninga til að borga kostnað við slík ný kerfi. Það kemur að því að við stöndum frammi fyrir þeim vanda að setja saman fjárlög sem hafa það að markmiði að standa við slíkar ákvarðanir. Allt of sjaldan muna menn eftir því á hinu háa Alþingi.
    En mér er enn fremur spurn og ég varpa því vitaskuld til hæstv. dómsmrh.: Er það svo að íslenskt réttarkerfi og íslenskir dómstólar beiti íslenska borgara misrétti? Er það svo að íslenskir borgarar séu misrétti beittir af réttarkerfinu íslenska og dómstólunum? Eru einhver brögð að því? Ef svo er, þá er vitaskuld ábyrgð yfirmanns dómsmála mikil og eðlilegt að hann vilji breytingar. Og ef svo hefur viðgengist á undanförnum árum eða áratugum felst í slíkri fullyrðingu mikil ásökun í garð þeirra mætu manna ýmissa sem gegnt hafa störfum dómsmrh. á undan hæstv. dómsmrh. Halldóri Ásgrímssyni. En ef þetta er ekki svo, ef það er ekki svo að íslenskt réttarkerfi og íslenskir dómstólar beiti íslenska borgara misrétti, hvaða þörf er þá á því að breyta til og leggja í stóraukinn kostnað, taka upp nýtt kerfi, auka við yfirbyggingu þjóðfélagsins, auka við umsvif dómsmálakerfisins, auka kostnað við rekstur á réttarkerfinu, auka skattheimtu í okkar þjóðfélagi? Það hlýtur að vera mikil ástæða til þess að það sé gert. Og ég beini þeirri fyrirspurn til hæstv. ráðherra hvort þetta sé svo, hvort það sé ástæðan fyrir því að að þessari
breytingu sé horfið, og hlýt að bíða eftir svörum.
    Ég met það svo að aðild okkar að alþjóðlegum sáttmála sé ekki orsökin, enda var það niðurstaða hv. 2. þm. Vesturl., sem ég hygg að kunni a.m.k. álíka fyrir sér í lögum eins og hæstv. dómsmrh., að við stöndum tryggum fótum, Íslendingar, í réttarfarsmálum okkar varðandi alþjóðasáttmála um þessi mál og betur en ýmsar þjóðir aðrar. Þess vegna læt ég það verða mín lokaorð að beina fram komnum fyrirspurnum til hæstv. ráðherra.