Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Það var aðeins út af spurningu hv. þm. Pálma Jónssonar um það hvort Íslendingar væru misrétti beittir af íslenska dómskerfinu. Ég tel svo alls ekki vera og ég veit ekki til þess að þar hafi orðið neitt meiri háttar slys. Hitt er svo annað mál að við munum aldrei geta fullyrt um það frekar hér á landi en annars staðar í heiminum. Auðvitað eru mannanna verk misjöfn og það er oft erfitt að greina rétt frá röngu. Það er vissulega erfitt hlutskipti sem dómstólar landsins hafa í því sambandi á hinum ýmsu tímum. Þess vegna er að sjálfsögðu mikilvægt að það sé sem best traust á dómstólum landsins, fyrst og fremst hér innan lands en jafnframt gagnvart okkar nágrannaþjóðum, því að land sem hefur trausta dómstóla og traust dómskerfi nýtur jafnan virðingar á alþjóðavettvangi. Þar af leiðandi er mikilvægt og samdóma álit allra að aðskilja sem mest framkvæmdarvald og dómsvald.
    Það sem hér er á ferðinni er að mínu mati eðlilegt framhald af þeim ýmsu breytingum sem orðið hafa á undanförnum árum að því er varðar sérstakan saksóknara, að því er varðar stofnun Rannsóknarlögreglu ríkisins o.s.frv. o.s.frv.
    Ég get vel tekið undir það með hv. þm. að frumvörpum á að fylgja ítarlegt kostnaðarmat. Það hefur farið fram kostnaðarmat í þessu máli og það hefur verið gert í fullu samráði við Fjárlaga- og hagsýslustofnun. En ég get út af fyrir sig alveg tekið undir það með honum að það hefði mátt gera betur grein fyrir því í frv. En það mun hafa verið rætt ítarlega í nefnd í hv. Ed. og ég vænti þess að svo verði einnig í hv. nefnd í Nd.
    Hitt er svo annað mál að ég hef nokkrar efasemdir um að kostnaðaraukinn verði svo gífurlega mikill. Ég viðurkenni fúslega að það fylgir þessum dómstólum nokkur stofnkostnaður. Hins vegar er það svo að það er víða verið að bæta aðstöðu þessara embætta og þarf að gera það hvort eð er í hinum ýmsu tilvikum.
    Ég tek eftir því að það er mikið álag á dómstólunum í Reykjavík. Dómsmálum fer fjölgandi, m.a. vegna okkar efnahagsástands, og þessum málum verður að sinna með aukinni vinnu viðkomandi dómara sem verður oft til þess að erfiðlega gengur að standast forsendur fjárlaga eins og ég veit að hv. þm. Pálmi Jónsson þekkir jafnvel og betur en ég. Með því að færa þessi verkefni í meira mæli og jafna þeim um landið sýnist mér að að álagið muni færast á milli aðila þannig að ég er ekki mjög hræddur um að hér verði gífurlegur kostnaðarauki. Ég tek hins vegar alveg undir með honum að það beri að fara varlega í sakirnar í þessum efnum og ekki síst þess vegna tel ég mjög skynsamlegt að taka lengri umþóttunartíma. Það er nauðsynlegt að gera áætlun um með hvaða hætti verður staðið að stofnkostnaði sem snertir þetta mál beint eða óbeint og dreifa honum á hæfilegt tímabil. En þó að nefnt sé dómhús í Reykjavík tengist það ekki beint þessu máli vegna þess að dómstólarnir í Reykjavík þurfa að sjálfsögðu að vera í góðu húsnæði og hvað svo sem yrði um þetta mál þyrfti

það jafnt að vera til umfjöllunar því engum dettur í hug að leggja þá á einn eða annan hátt niður og það er fólgið í því mikið hagræði að hafa þá sem mest í sömu húsakynnum, en nú eru þeir mjög dreifðir.
    Það er einnig ljóst að í Hafnarfirði býr bæjarfógetaembættið í leiguhúsnæði sem ekki er til frambúðar þannig að þar þarf að eiga sér stað úrlausn. Ég get nefnt sem dæmi á Austurlandi að það er nauðsynlegt að byggja lögreglustöð á Egilsstöðum og jafnframt að búa svo um hnútana að dómstóllinn þar geti verið á sama stað. Hann þarf ekki neitt óskaplega stór húsakynni. Með þessu er ég ekki að gera lítið úr varúð í fjármálum sem hv. þm. Pálmi Jónsson var að innprenta mér og öðrum. Það eru þarfar ádrepur og mætti flytja þær sem oftast hér og ekkert síður yfir öðrum en mér. En ég tek allar slíkar ádrepur alvarlega.
    En ég ítreka að ég dreg úr þeim áhyggjum sem menn hafa af gífurlegum kostnaðarauka í sambandi við þetta mál. Hins vegar sýnist mér að það eigi sér stað verulegur kostnaðarauki smátt og smátt í dómskerfinu vegna mikillar fjölgunar mála. Þar er úr vöndu að ráða því að enginn vill að mál hrannist þar upp og bíði úrlausnar langtímum saman. Það rýrir mjög traust á réttarfarinu og við það er eigi hægt að búa.
    Það er vilji okkar margra að þjónustan færist í meira mæli heim í héruðin og til fólksins. Það hefur vissulega oft og tíðum kostnaðarauka í för með sér. Slíkt má nefna mörg dæmi um, en þar er til mikils að vinna og ég held að það sé alveg ljóst að þetta er eitt af þeim málum sem munu dreifa þessari starfsemi mun meira um landið.
    Ég vil líka minna á í þessu sambandi að hér var til umfjöllunar ár eftir ár svokallað lögréttufrv. sem trúlega hefði haft í för með sér meiri kostnaðarauka þannig að hér er ekki um neina nýja hugsun að ræða eins og kom skýrt fram hjá hæstv. iðnrh. En það er afar mikilvægt að komast að niðurstöðu í þessu máli þannig að við vitum hvert við viljum stefna á þessu sviði. Mér er alveg ljóst að þetta mál eins og öll önnur hefur ýmsa galla, en það hefur jafnframt marga kosti og ég sé ekki að við komumst frá því með ódýrari hætti en hér er gert ráð fyrir, en bendi hins vegar á að það gefst góður tími til að
fara betur ofan í þau mál og má að sjálfsögðu ná meiri sparnaði. Við getum lagt niður ákveðin sýslumannsembætti án þess að skerða mjög þjónustuna við íbúana. En það er erfitt að nefna ákveðin embætti í því sambandi alveg eins og við vitum að það er hægt að fækka prestaköllum í landinu. Það er hins vegar afar viðkvæmt mál. Í frv. sem þar hefur komið fram er gert ráð fyrir því, en það hefur valdið miklum mótmælum heima fyrir. Þannig er þessum málum varið að það er ekki alltaf spurningin um eingöngu hagkvæmni heldur jafnframt dreifingu og þjónustu við íbúa landsins.
    Ég þakka þær umræður sem hér hafa farið fram og vænti þess að hv. nefndarmenn fái allar þær upplýsingar sem þeir telja nauðsynlegar. En aðeins út

af því sem hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði, að það væri stutt til stefnu, sem er út af fyrir sig rétt, minni ég á að það vannst góður tími til þess í milliþinganefndinni fyrir ýmsa aðila sem ég veit að eiga sæti í allshn., sumir hverjir a.m.k., að fara mjög vel ofan í málið þannig að mér finnst kannski ekki alveg sanngjarnt að segja að þingdeildarmenn og nefndarmenn hafi aðeins þessar þrjár vikur til að kynna sér málið. Ég veit að þeir sem best þekkja til málsins, eins og hv. 2. þm. Vesturl., hafa haft allgott ráðrúm til að setja sig inn í það og það er svo hér í þinginu að við getum ekki sett okkur alveg inn í hvert einasta mál og treystum þá okkar flokksfélögum sem best til þekkja til að gera það fyrir okkar hönd og upplýsa okkur um málið. Þannig ganga vinnubrögð fyrir sig í þinginu þótt ég dragi ekki úr því, sem hv. þm. sagði, að það er mjög mikilvægt í þessu stóra máli að hver og einn þingmaður setji sig sem best inn í það.