Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):
    Herra forseti. Aðeins örstutt. Það má vel vera að ég hafi ekki talað nægilega skýrt um aðalástæðu fyrir flutningi þessa máls. En hún er að sjálfsögðu sú að aðskilja dómsvald og framkvæmdarvald. Það er aðaltilgangurinn með þessu frv. ( PJ: Það er kerfisbreytingin en ekki orðalagið.) og til þess að gera það þarf að framkvæma breytingar. Það liggur alveg ljóst fyrir að mál sem varðar okkar réttarfar hefur verið til umfjöllunar hjá mannréttindadómstólnum. Það er ástæða til að taka það mál alvarlega og ég veit að allir þeir sem hafa kynnt sér það vel taka það mjög alvarlega. Það er eðlilegt að við ræðum það ekki eingöngu í ljósi þess máls heldur líka í ljósi þess hvert við viljum stefna því að það er mjög alvarlegt mál ef mannréttindadómstóllinn kæmist að þeirri niðurstöðu að hér sé ekki staðið að málum með þeim hætti sem venjulegt er í lýðræðisríkjum. En í því að ég segi það þarf ekki að felast á nokkurn hátt ásökun á íslenska dómstóla og réttarkerfið heldur er um að ræða það traust sem er bæði inn á við og út á við og ef það er rýrt er það svo alvarlegt mál fyrir íslenska dómskerfið að ég vil a.m.k. ekki hugsa um þær afleiðingar sem slíkt gæti haft. En með því er ég ekki að segja að það mál eigi að stjórna í einu og öllu gerðum okkar í þessu máli.