Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Eins og fram kom í máli mínu áðan deili ég áhyggjum með hv. 2. þm. Norðurl. v., og raunar kom það einnig fram í máli hv. 2. þm. Vesturl., út af þeim kostnaði sem ég tel að þessar breytingar óhjákvæmilega hafi í för með sér. Hafi ég ekki talað nógu skýrt í því efni áðan vildi ég ítreka gagnrýni mína á að ekki skuli nákvæm kostnaðaráætlun liggja fyrir. Ég mun beita mér fyrir því í nefndarstörfum og vænti að hafa þar liðsinni hv. 2. þm. Vesturl. að við fáum það kostnaðarmat sem hv. 2. þm. Norðurl. v. talaði um, nákvæmt mat á þeim kostnaði sem þetta hlýtur að hafa í för með sér, bæði hvað varðar mannahald og stofnun þessara embætta, húsnæði, innréttingar og fleira í þeim dúr, og að þetta mat liggi fyrir áður en málið verður afgreitt frá nefndinni. Ég tel það nauðsynlegt og mun beita mér fyrir því.