Lagmetisiðnaður
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Herra forseti. Ég vil nota þetta tækifæri til að fagna framkomu þessa frv. sem mér sýnist vera sjálfsagt mál og eðlilegt. Þó hygg ég að það þurfi að gæta sín nokkuð á heimildum eins og þeim sem koma fram í tillgr., 1. gr. frv., því að það hlýtur að vera eðli sjóða eins og Þróunarsjóðs lagmetisiðnaðarins að vera fyrst og fremst lánasjóðir en ekki sjóðir sem veita eigi áhættufjármagni til ýmissa fyrirtækja og kannski síst til þeirra fyrirtækja sem eiga í vandræðum. Af tillögugreininni má hins vegar ráða að hugmynd hæstv. ríkisstjórnar og hæstv. iðnrh. sé að opna möguleika fyrir Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins að leggja fram fjármuni annars vegar til þróunarfyrirtækja, fyrirtækja sem eru að ryðja sér braut í nýrri framleiðslu og þurfa á hjálp að halda. Þar kæmi til greina að veita styrki eða veita lán með þeim hætti sem lán hafa verið veitt almennt, en auðvitað er það einnig ágætur kostur að til sé möguleiki á að leggja fram áhættufé til slíkra fyrirtækja, enda verði það áhættufé ávallt minni hluti eigin fjármagns í fyrirtækjum. Ég vil taka það fram að mér þætti það alls óviðeigandi ef sjóður eins og Þróunarsjóðurinn ætti meiri hluta í slíkum fyrirtækjum.
    Í öðru lagi er tekið fram í tillögugreininni að leggja megi hlutafé í markaðsfyrirtæki. Ég hygg að Þróunarsjóðurinn hafi lánað jafnvel með víkjandi lánum til markaðsstarfsemi, markaðskynningar. Ég tel að það sé full ástæða til þess að aðili á borð við Þróunarsjóðinn eigi þess kost að leggja fram áhættufé sem gæti orðið til þess að sameina ýmsa aðila sem stunda lagmetisiðnað hér á landi í markaðsleit og hafa reyndar síðustu atburðir sýnt fram á nauðsyn þess. Á sama hátt hygg ég að það væri óskynsamlegt að Þróunarsjóðurinn ætti meiri hluta í slíku fyrirtæki.
    Virðulegur forseti. Það mál sem hér er til umræðu minnir mann á umræður sem fóru fram fyrr á þessu þingi um svokallaðan Hlutafjársjóð Byggðastofnunar. Hann var settur á laggirnar á sínum tíma vegna ýmissa sjóða sem eiga verulegar eignir útistandandi hjá fyrirtækjum, einkum í sjávarútvegi. Honum var ætlað að kaupa hlutabréf í þessum fyrirtækjum gegn því að lánardrottnar fyrirtækjanna keyptu hlutdeild í hlutafjársjóðnum fyrir samsvarandi upphæð. Það kom fram í þeim umræðum að hugsanlega hefði verið skynsamlegra að sjóðirnir hver um sig hefðu tækifæri til að breyta skuldum sínum í hlutafé og taka þannig beina ábyrgð á þeim rekstri sem þeir hefðu lánað til í upphafi. Í raun má segja að hlutafjársjóðurinn hafi verið eins konar feluleikur með ábyrgð ríkisins til þess a.m.k. að fresta því að vandamál þau sem þegar hafa komið fram í sjávarútvegi og útflutningsgreinum yrðu til þess að fyrirtæki yrðu gjaldþrota. Það hefði, fyrst hæstv. ríkisstjórn ætlaði sér að leggja fram ákveðna fjármuni í því sambandi, verið jafnvel líklegra til árangurs ef fjármagn hefði verið lánað einstaklingum, einkum starfsmönnum fyrirtækjanna og öðrum þeim sem áhuga hefðu á að festa fé í slíkum fyrirtækjum, með tryggingum í eignum slíkra aðila og fá þannig fleiri til að taka þátt í því að leggja fram áhættufé í

atvinnurekstri sem er mikilvægur, einkum og sér í lagi fyrir einstök byggðarlög í landinu. Það var ekki gert og ég tel að sá sjóður geti því miður orðið til þess að koma óorði á hlutafjárframlög opinberra sjóða vegna þess að almenningur kynni að álíta sem svo að ekki beri að auka hlutafé í fyrirtækjum nema fyrirtæki hefðu lent í vandræðum, m.a. vandræðum vegna þess að rekstrargrundvöllur er ekki fyrir hendi.
    Þetta sjónarmið, sem ég hef nú rakið og snertir hlutafjársjóðinn, á raunar ekki skylt við frv. sem hér er til umræðu nema að takmörkuðu leyti, því leyti sem ég hef nú rætt.
    Hæstv. ráðherra nefndi það í sinni ræðu að nauðsynlegt væri fyrir hæstv. ríkisstjórn og reyndar fyrirtækin í landinu og almenning allan að undirbúa sig undir framkvæmd þeirrar ákvörðunar sem þegar hefði verið tekin af hálfu Evrópubandalagsins. Undir það vil ég taka. Mér hefur hins vegar sýnst og vil láta það koma fram nú sem hæstv. ríkisstjórn hafi ekki gert nægilega mikið til að undirbúa Íslendinga undir aukin átök og aukna samkeppni ef og þegar til hins innra sameiginlega markaðar bandalagsins kemur. Í því sambandi á ég sérstaklega við að það hlýtur að koma að því fyrr en síðar að Íslendingar eigi þess kost að nýta sér áhættufjármagn af erlendum toga í meiri mæli en nú er heimilt samkvæmt lögum og eins hlýtur að þurfa að örva íslensk fyrirtæki og íslenska aðila til þess að eignast í fyrirtækjum erlendis. Þetta hafa nágrannaþjóðir okkar sem starfa í EFTA en hafa ekki hug á því a.m.k. á næstu árum að ganga í Evrópubandalagið, sem að vísu getur ekki orðið fyrr en í fyrsta lagi eftir 1992 vegna ákvörðunar bandalagsins, gert fyrir löngu og má nefna frumkvæði í Finnlandi og Noregi því til stuðnings, en eins og allir vita hafa Svíar fyrir langalöngu hafið innreið með sínar iðnaðarvörur á markaðinn í Evrópu og reyndar víða annars staðar.
    Þetta vildi ég, virðulegur forseti, að kæmi fram í umræðum um mál sem ég tel eðlilegt að styðja. Það kann vel að vera að það þurfi að setja almennari skilyrði í lagagreinina, en ég hygg að það sé fullur skilningur á því, bæði í ráðuneytinu og eins í stjórn sjóðsins, að þessa heimild á ekki að nota til
þess að ná meirihlutaaðild að fyrirtækjum heldur fyrst og fremst til að styðja við nýsköpun, þróunarverkefni og til þess að leggja fram hlutafé í fyrirtæki sem þurfa á því að halda að efla markaðssókn fyrir íslenskar framleiðsluvörur.
    Að svo mæltu vil ég lýsa yfir stuðningi mínum við efnisatriði frv.