Ríkisprentsmiðjan Gutenberg
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga á þskj. 770 um stofnun hlutafélags um ríkisprentsmiðjuna Gutenberg. Þetta frv. miðar að því að gera ríkisprentsmiðjuna Gutenberg að hlutafélagi en þannig að öll hlutabréfin verði í eigu ríkissjóðs. Ef til sölu hlutabréfa í fyrirtækinu skyldi koma yrði málið lagt fyrir þingið og salan ekki framkvæmd nema með samþykki Alþingis eins og fram kemur í 4. gr. frv.
    Hér er því einungis um formbreytingu á rekstrinum að ræða og við þá formbreytingu breytast m.a. þeir þættir sem ég mun hér greina:
    1. Ábyrgð ríkissjóðs á rekstrinum takmarkast við hlutafjáreignina.
    2. Fjárhagsleg ábyrgð stjórnenda skýrist og verksvið stjórnar og framkvæmdastjóra verður betur skilgreint.
    3. Fyrirtækið mun engrar sérstöðu njóta umfram önnur fyrirtæki í greininni, ekki heldur hvað varðar t.d. skattgreiðslur.
    4. Reksturinn verður sveigjanlegri t.d. hvað varðar heimildir til fjárfestingar sem fyrirtækið þá tekur um sjálfstæðar ákvarðanir eftir sínum eigin aðstæðum.
    5. Fyrirtækið mun, ef þetta frv. verður að lögum, lúta sömu almennu starfsreglum og önnur atvinnufyrirtæki flest, þ.e. ákvæðum hlutafélagalaga.
    Ég ætla ekki að setja á langar ræður um kosti þess að velja hlutafélagaformið fyrir atvinnurekstur, en ég vísa til þess sem um það mál segir í grg. með frv. Ég vil einungis benda á að í nágrannalöndum okkar, sem við höfum hvað tíðastan samanburð og samjöfnuð við, er þessi tilhögun á rekstri sem ríkið stundar í atvinnustarfsemi því sem næst meginregla. Sérstaklega virðist mér eðlilegt að þetta fyrirkomulag sé haft þegar um er að ræða rekstur sem er rekinn í samkeppni við einkaaðila sem reka sams konar eða mjög svipaðan rekstur. Þetta er hins vegar þannig vaxin prentsmiðja að það er eðlilegt að ríkið eigi hana að öllu leyti, en hins vegar séu starfsskilyrði hennar sem líkust og verður í öðru prentverki í landinu.
    Í frv. er lagt til að ríkisstjórnin beiti sér fyrir stofnun hlutafélagsins Prentsmiðjan Gutenberg hf. sem taki við rekstri ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg 1. janúar 1990. Í því skyni verði ríkisstjórninni heimilt að leggja prentsmiðjuna sjálfa ásamt öllu fylgifé til hlutafélagsins og að láta fara fram mat á eigum ríkisprentsmiðjunnar til viðmiðunar við ákvörðun á fjárhæð hlutafjárins.
    Hlutverk þessa félags skal vera að vinna prentverk fyrir Alþingi, stjórnarráðið og ríkisstofnanir. Félagið skal einnig annast almennt prentverk svo og skylda starfsemi samkvæmt nánari ákvæðum í samþykktum félagsins. Stofnfund í hlutafélaginu skal halda ekki seinna en þremur mánuðum eftir gildistöku laganna og skal þar leggja fram drög að stofnsamningi og samþykktum fyrir félagið á þessum fundi.
    Um málefni ríkisprentsmiðjunnar Gutenberg, sem hefur verið í eigu ríkisins frá því árið 1930, hafa ekki verið sett nein sérstök lög. Meginverkefni fyrirtækisins hefur ætíð verið prentverk fyrir Alþingi, stjórnarráðið,

ríkisstofnanir og ríkisfyrirtæki. Árið 1987 voru þannig 95% af öllum verkum í prentsmiðjunni unnin fyrir opinbera aðila. En einmitt vegna þess hversu einskorðaður þessi rekstur er við þarfir þings og stjórnar tel ég eðlilegt að ríkið eigi þetta fyrirtæki að öllu leyti.
    Fyrirtækið hefur frá stofnun iðnrn. árið 1969 heyrt undir það ráðuneyti og hefur iðnrh. skipað forstjóra fyrirtækisins. Því er nú lagt til að iðnrh. fari með eignarhlut ríkisins í félaginu.
    Ég tel ekki þörf á að hafa fleiri orð um efni frv. en ítreka að hér er aðeins lögð til formbreyting á rekstri Gutenberg út frá því meginsjónarmiði að eðlilegt sé að fyrirtækjum í atvinnurekstri í eigu ríkisins sé settur sami almenni starfsrammi og flestum öðrum stærri atvinnufyrirtækjum í landinu, þ.e. ákvæði hlutafélagalaga.
    Að endingu legg ég svo til að frv. verði að lokinni þessari 1. umr. vísað til hv. iðnn. og 2. umr.