Ríkisprentsmiðjan Gutenberg
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég fagna því að þetta frv. hefur verið lagt fram í nafni hæstv. ríkisstjórnar. Samsvarandi frv. var lagt fram á síðasta þingi en fékk þá ekki umræðu.
    Ríkisprentsmiðjan Gutenberg hefur verið í eigu ríkisins frá 1930, en þá var samþykkt við 3. umr. fjárlaga að festa kaup á prentsmiðjunni Gutenberg. Þau kaup voru á sínum tíma nokkuð umdeild, ekki síst vegna þess að ýmsum þótti sem heimildin til kaupanna vær á veikum grunni reist þar sem hún byggðist á því að flutt var og samþykkt brtt. við 3. umr. fjárlaga.
    Það frv. sem hér er til umræðu var undirbúið í tíð fyrrv. ríkisstjórnar og því ætti það ekki að koma á óvart þótt sá sem hér stendur lýsi yfir stuðningi við það. Ég tel að það sé skynsamlegt, eins og fram kemur í frv., að breyta ríkisprentsmiðjunni fyrst í hlutafélag, á síðari stigum má síðan taka ákvörðun um það hvort selja megi eignarhluti ríkisins í félaginu og þá með atbeina Alþingis.
    Ég tel að það sé eitt af almikilvægustu verkefnum þessarar þjóðar á næstunni að búa þannig um hnútana að hægt verði að efla og auka viðskiptin á svokölluðum hlutabréfamarkaði. Takist slíkt þá eykst sparnaður áreiðanlega hér á landi. Fjölbreytni í sparnaði mundi verða meiri og það sem skiptir kannski mestu máli er að fyrirtæki á borð við þetta væri hægt að selja almenningi smám saman, þar á meðal starfsmönnum fyrirtækisins, á markaðsverði bréfanna. Þá þyrfti ekki að grípa til þess að selja einum aðila allt fyrirtækið heldur væri hægt að stefna að því, ef stjórnvöldum sýndist svo, að gera fyrirtæki á borð við þetta að almenningshlutafélagi.
    Ég vil nota þetta tækifæri til þess að fagna því jafnframt að hæstv. ríkisstjórn hefur lagt fram frv. sem gerir Járnblendiverksmiðjunni mögulegt að taka þátt í annarri starfsemi og eiga hlut í öðrum íslenskum fyrirtækjum. Ég tel slíkt vera skynsamlegt. Það þýðir í raun að ávöxtur af starfi þess félags verður skilinn eftir í ríkari mæli hér á landi en ella hefði orðið og ég tel það ákjósanlegt að þeir erlendu aðilar, bæði norskir og japanskir sem eiga samstarf við okkur um járnblendiverksmiðjuna, geti þannig lagt sitt mat á fjárfestingarnar sem ég tel vera ákjósanlegt vegna þess að slíku fylgir æskilegt aðhald að ýmsu leyti.
    Nú er það svo, virðulegur forseti, að hæstv. iðnrh. boðaði það á sl. hausti, og kom það fram í fylgiskjali með stefnuræðu hæstv. forsrh., að hér yrðu lögð fram tvö frumvörp um að breyta ríkisfyrirtæki í hlutafélag. Þetta var annars vegar ríkisprentsmiðjan Gutenberg, sem við erum að ræða hér í dag, og hins vegar að flutt yrði frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins sem segja má að sé nákvæmlega sams konar frv. byggt á nákvæmlega sömu grundvallaratriðum. Eftir að ég hafði kynnt mér málið og talað bæði við hæstv. iðnrh. og enn fremur aðra aðila úr ríkisstjórninni varð mér ljóst að það mál hefði strandað í þingflokki Alþb. Því brá ég á það ráð að flytja frv. sjálfur, enda hafði frv. verið tilbúið til

flutnings þegar ég hvarf úr starfi mínu sem iðnrh. í síðustu ríkisstjórn. Það gerði ég og hafði þá tilkynnt hæstv. iðnrh. það áður.
    Þar sem þetta frv. er nú komið fram og ljóst að það byggir á sama grundvallaratriði og á sömu röksemdum og koma fram í frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins á þskj. 602 hlýt ég að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hann og hans flokkur séu tilbúnir að styðja það frv. sem er 333. mál þingsins. Ég veit að hæstv. ráðherra og Alþfl. eru málinu samþykkir og þar með tel ég nokkuð augljóst að það sé meirihlutafylgi á Alþingi fyrir því að Sementsverksmiðja ríkisins fái sömu meðferð og ríkisprentsmiðjan Gutenberg og á grundvelli sömu röksemda. Þess skal getið að frv. um Sementsverksmiðju ríkisins hefur tekið breytingum. Það er flutt nú í sinni fjórðu gerð frá upphafi, a.m.k. ef miðað er við síðustu fjögur til fimm árin, og nú með þeim hætti að stjórnendur fyrirtækisins telja að fyrirtækið sé í mjög æskilegum búningi svo og þeir aðilar sem hafa látið sig málið skipta á Akranesi, sem mundi verða heimili og varnarþing hins nýja hlutafélags.
    Ég vil, virðulegur forseti, þess vegna um leið og ég lýsi yfir stuðningi við þetta frv., sem ég tel að sé mjög gott og sé fagnaðarefni að komi fram, lýsa sérstaklega yfir að ég tel að forustusveit Alþb. eigi heiður skilið fyrir að hafa samþykkt að leggja þetta frv. fram, þótt ég fái ekki skilið hvers vegna þeir féllust ekki á að samþykkja að flutt yrði frv. til laga um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðjuna með sömu rökum. En þar sem ég veit að þingflokkur Alþfl. er tilbúinn til að styðja það frv. og ég get ímyndað með að einhverjir framsóknarþingmenn væru tilbúnir til að styðja það, fyrir utan Sjálfstfl., gæti þannig myndast meiri hluti ásamt stuðningi annarra flokka. Ég tel því fulla ástæðu vera til þess að spyrja hæstv. ráðherra, í ljósi þess að hann hafði í huga strax í haust að flytja slíkt frv., hvort hann sé tilbúinn til þess nú eða kannski á síðari stigum, jafnvel við umræðuna um það frv., að lýsa yfir stuðningi við frv. Mér er að sjálfsögðu ljóst að slíkt er erfitt stjórnarsamstarfsins vegna. En ég hygg að eftir að Alþb. hefur samþykkt
framlagningu þessa frv. geti þingflokkur Alþb. hugsanlega samþykkt að Alþfl. styðji frv. sem ég veit að hæstv. ráðherra hafði í hyggju að flytja sjálfur, ekki síst með tilliti til þess að ýmsir af ráðherrum Alþb. hafa greinilega tekið á sig ábyrgð ýmissa verka upp á síðkastið án þess að til komi samþykki samráðherra þeirra í hæstv. ríkisstjórn. Ekki ætla ég að nefna í því sambandi nein sérstök mál, en auðvitað kemur hugtakið Sjafnaryndi einhvern veginn upp í huga mér þegar ég ræði um reynsluna nú á síðustu dögum í valdatíð þessarar hæstv. ríkisstjórnar.
    Þess vegna, hæstv. ráðherra, spyr ég að því hvort hugsanlegt sé, svarið komi annaðhvort á þessari stundu eða þá að viðræður þurfi að fara fram á milli stjórnarflokkanna, að Alþfl. treysti sér til þess að styðja það frv. Hvort það komi til greina og hvort

hæstv. ráðherra muni eða vilji beita sér fyrir því í stjórnarsamstarfinu að þeir sem séu hlynntir því máli geti greitt fyrir framgangi þess á hinu háa Alþingi, enda eru nákvæmlega sömu rök fyrir báðum frumvörpunum.
    Virðulegur forseti. Ég hef lýst yfir stuðningi við framkomið frv. og óska eftir því að hæstv. ráðherra geri jafnframt grein fyrir skoðunum sínum gagnvart öðru sams konar frv. sem hann sjálfur hafði í hyggju að flytja á yfirstandandi þingi.