Ríkisprentsmiðjan Gutenberg
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir stuðninginn við frv. Ég fæ nú ekki alveg skilið hugrenningatengslin við sements- og Sjafnaryndið, en hann verður að skýra það út fyrir mér utan fundar.
    Ég vil taka það fram að ég tel að það gegni ekki nákvæmlega sama máli um hugsanlega breytingu á Sementsverksmiðju ríkisins í hlutafélag og um ríkisprentsmiðju. Skýringin er einföld. Hún er sú að Sementsverksmiðjan hefur því sem næst einkasöluaðstöðu og nýtur fjarlægðarverndar miðað við innflutt sement og því orkar sú breyting fremur tvímælis sem vissulega er rétt að ég hafði í huga að gerð yrði á rekstrarformi þess fyrirtækis.
    Það er líka rétt hjá hv. 1. þm. Reykv. að það frv., sem hann hefur nú lagt fram í þinginu, ber þess vitni að hann hafi lært af reynslunni og viðræðum við Akurnesinga og aðra sem búa þar í héraðinu. Það var auðvitað alveg frumskilyrði fyrir breytingum á rekstrarformi þess fyrirtækis að það ætti lögheimili og varnarþing á Akranesi. Í upphafi ætti ríkið öll hlutabréfin í félaginu og að félaginu væri frjálst að taka þátt í öðru atvinnulífi í héraði en sementsframleiðslu. Þetta eru náttúrlega atriði sem varð að virða í hverju frv. sem varðar þann rekstur.
    Á þessari stundu er ég alls ekki tilbúinn til þess að lýsa neinu yfir um stuðning við það mál. Ég þarf nú ekkert að skýra það fyrir hv. 1. þm. Reykv. svo þing- og stjórnreyndur sem hann er. Það náðist reyndar ekki samkomulag um þetta frv. sem stjórnarfrv. fremur en það tókst að ná samkomulagi um þingmálið í fyrri stjórn af ýmsum ástæðum. Ég tel þetta ekki vera neitt stórkostlegt mál til þess að gera úr mikilvægan ágreining milli flokka. Það er hagkvæmnisatriði hvernig best er að komna fyrir þessum rekstri. Rekstur Sementsverksmiðjunnar hefur gengið vel að undanförnu. Það má vel vera að hann gæti gengið enn betur með breytingum á rekstrarfyrirkomulaginu. Það er óséð mál. Það þarfnast frekari athugunar og það mun sjálfsagt koma í ljós þegar þingmál hv. 1. þm. Reykv. um að breyta Sementsverksmiðjunni í hlutafélag verður hér tekið fyrir hvað um það er hægt að segja.