Skógrækt
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Jón Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að segja örfá orð um það frv. til laga um skógvernd og skógrækt sem hér liggur fyrir. Ég fagna framkomu þessa frv. og vonast til þess að það fái afgreiðslu hér á hv. Alþingi þó að vissulega sé nokkuð liðið á þingtímann. Ég tel að frv., ef samþykkt yrði, marki nokkur tímamót í skógrækt og skógvernd hérlendis og vil sérstaklega taka undir tilgang laganna sem fram kemur í I. kafla þeirra, í þremur liðum, og fjallar um það að skóglendi verði verndað, aukið og bætt og nýir skógar verði ræktaðir þar sem henta þykir og frætt verði um leiðbeiningu og ræktun skóga, skjólbelta og annars trjágróðurs. Þetta eru fróm markmið og góð og ég vil sérstaklega taka undir þau.
    Í II. kafla frv. er fjallað um Skógrækt ríkisins. Ég vil sérstaklega fagna því að staðfestur er í frv. sá vilji, sem hefur reyndar komið hér fram áður sem ályktun Alþingis, að aðalstöðvar Skógræktar ríkisins skuli vera á Austurlandi. Ég vil taka það fram að ég er sammála því sem fram hefur komið í þessari umræðu, að ef ekki er hægt að flytja stofnun af þessu tagi út á land á stað þar sem skógrækt er öflug og hefur verið í gegnum árin held ég að við ættum að hætta öllu tali um flutning ríkisstofnana. Þetta mál er prófsteinn á það hvort yfirleitt þýðir um hann að tala. Ég fagna þessu ákvæði sérstaklega og vona að það nái fram að ganga.
    Ég vil ekki tefja tímann með því að blanda mér í orðskýringar. Þær verða að sjálfsögðu athugaðar í þeirri nefnd sem fær málið til meðferðar, en í kaflanum um skógvernd og friðun er aðallega fjallað um hvernig á að verja skóga fyrir búfé og það er að sjálfsögðu góðra gjalda vert. Spurning er hvort á að setja í lög eða reglugerð svo nákvæm fyrirmæli um hvað gera skal í þeim efnum. Það verður að sjálfsögðu athugað. Hins vegar finnst mér að sú nefnd sem fær málið til meðferðar ætti að ræða sérstaklega hirðingu þess skóglendis sem til er hér á landi. Þá á ég við þá birkiskóga sem víða eru til hér á landi en eru ógrisjaðir og illir yfirferðar. Það er ærið verk að hirða um það skóglendi þannig að það verði gróskumikið, gott yfirferðar og mönnum til yndisauka. Ég held að athuga ætti sérstaklega hvort ekki beri að setja skýrari ákvæði um hvernig staðið skuli að slíkum verkefnum.
    Allra merkasta nýmælið í þessu frv. er e.t.v. í V. kafla þess, sem fjallar um ræktun nytjaskóga, þar sem kveðið er á um kostnaðarhlutdeild ríkisins í ræktun nytjaskóga á bújörðum. Það hefur verið rakið hér í umræðunni áður hve brýnt verkefni um er að ræða við núverandi ástand atvinnumála í sveitum landsins. Ég vil geta þess að á Austurlandi er nú einstakt tækifæri til að taka heilleg landsvæði undir skógrækt þar sem þau eru nú búfjárlaus vegna riðuniðurskurðar og það er mikill áhugi fyrir því hjá bændum. Við þingmenn Austurlands verðum rækilega varir við það á okkar ferðum og með þeim erindum sem til okkar berast hve þessi áhugi er mikill. Ég vil sérstaklega leggja áherslu á þennan kafla frv. því það er

einstaklega brýnt að kveða á um fjármögnun í þessum efnum. Ég er ekki að segja að þetta skipti sköpum um atvinnuástand í sveitum landsins, en það yrði mjög mikil vítamínsprauta fyrir atvinnulífið í hinum dreifðu byggðum ef lögfest væri hvernig að fjármögnun og framkvæmdum á að standa í þessum efnum. Þetta er líka verkefni sem allir geta sameinast um og verið sammála um hvort sem þeir búa í sveitum landsins eða í þéttbýli. Um þetta verkefni þarf ekki að vera togstreita að mínu mati.
    Eins og ég sagði í upphafi ætla ég ekki að hafa mörg orð í þessari umræðu. Ég vona að þó að skammur tími sé til stefnu muni nefnd hafa ráðrúm til að fara yfir frv. og það verði ráðrúm til að afgreiða það á þessu þingi. Ég tel það mjög brýnt vegna þess áhuga sem er víða á landinu á framgangi þessara mála og á ég þar þá ekki síst við ákvæði V. kafla frv. sem fjallar um ræktun nytjaskóga. Það tel ég mjög merkt nýmæli og það er ein höfuðástæðan fyrir því að ég tel að frv. þurfi að fá afgreiðslu nú á þessu vori.