Náttúruvernd
Þriðjudaginn 11. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Þetta er einfalt mál sagði hæstv. menntmrh. Ég get tekið undir það, þetta er einfalt mál og auðskilið. Ástæðurnar fyrir tölti mínu upp í þennan stól eru tvær. Í fyrsta lagi gleðst ég yfir því að þetta frv. skuli vera fram komið og þarf ekki að hafa mörg orð um það. Það er búið að vera baráttumál landvarða í mörg ár að fá starf landvarða viðurkennt og fá viðurkennt að það þurfi ákveðna menntun til og undir það sjónarmið tek ég. Við þurfum á menntuðu fólki að halda sem leiðbeinir almenningi um landið og gætir þess og leiðbeinir um umgengni um landið.
    Ég vildi síðan gera eina athugasemd við þetta einfalda og auðskilda mál. Mér finnst fulllangt gengið að ætla Náttúruverndarráði að halda námskeið fyrir landverði, þ.e. að setja í lagatexta að það sé eingöngu Náttúruverndarráð sem sjái um menntun landvarða. Ég minni á að það hefur verið skipulögð braut við Garðyrkjuskóla ríkisins í Hveragerði þar sem boðið er upp á tveggja eða þriggja ára nám, ég man það nú reyndar ekki alveg hvort heldur er. Sú braut var auglýst þannig að þeir sem hafa lokið þar námi séu þar með búnir m.a. að afla sér menntunar til landvörslu. Það er líka hægt að hugsa sér að koma mætti upp brautum við fleiri framhaldsskóla þar sem ég tel að þetta nám muni þykja nokkuð eftirsóknarvert í þeirri vaxandi umræðu sem nú er um umhverfismál og vaxandi áhuga manna á þessum málum.
    Hins vegar finnst mér alveg sjálfsagt og einboðið að Náttúruverndarráð komi að þessum málum með einhverjum hætti þannig að það verði a.m.k. viðurkenningaraðili, þ.e. þær brautir sem boðið verður upp á verði viðurkenndar af Náttúruverndarráði. Það er alveg sjálfsagt að Náttúruverndarráð komi að þessu á einhvern hátt. Ég vænti þess síðan að um þetta komi reglugerð sem náttúrlega skiptir miklu máli.
    Þessi athugasemd mín felur hreint ekki í sér neina óánægju heldur finnst mér þetta aðeins vera athugunarvert og væri e.t.v. ekki flóknari breytingar þörf en svo að fella mætti niður fyrri hluta lokasetningar 1. gr., þ.e. þar standi aðeins: Ráðherra setur reglugerð um hæfi, menntun og starfsemissvið landvarða. Eða þá að þessum fyrra helmingi málsliðarins verði breytt t.d. þannig að hann verði: Náttúruverndarráði verði falin umsjón með þessu námi.
    Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram við þessa umræðu en lýsi aftur yfir fögnuði með að það skuli vera fram komið og stuðningi við það.