Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Forseti (Jón Helgason):
    Það er rétt hjá hv. 2. þm. Norðurl. e. að það er sjálfsagt fyrir forseta að reyna að hafa sem best samstarf við þingflokkana og ég mun taka það til athugunar þó að ég telji að ég hafi reynt það hingað til. Um atvikið í gærkvöldi ætla ég ekki að ræða frekar og endurtaka þá umræðu, en þar komu fram misjafnar óskir þingmanna. Því miður var ekki hægt að verða við þeim öllum þar sem þær gengu hvor í sína áttina.
    Um fund á föstudag er það að segja að það var fyrir alllöngu ákveðið á fundi forseta með formönnum þingflokka að þá yrðu umræður um utanríkismál, en síðan var því breytt þannig að þær verða ekki á föstudaginn. Þá virtist mér að það hlyti að vera æskilegt að nota þá þann dag fyrir deildafundi úr því að fundur í Sþ. féll niður.
    En um þá ábendingu að of mikið sé af málum á dagskrá er það að segja að þau eru sett á dagskrá samkvæmt þingsköpum. Hins vegar hef ég reynt að verða við því ef óskað er eftir að fresta einstökum málum eins og þegar hefur verið gert nú í sambandi við mál hér á dagskrá og með því móti að taka tillit til óska þingmanna.