Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er óhjákvæmilegt að leiðrétta nokkur atriði sem fram komu í ræðu hv. formanns þingflokks Alþfl. Ég hef látið athuga það á skrifstofu þingsins hvort annar hvor menntmrh. Sjálfstfl. hafi lagt fram frv. tveim eða þrem dögum fyrir þinghlé og það frv. hafi verið samþykkt á því sama vorþingi. Það hefur komið í ljós að Ragnhildur Helgadóttir lagði fram frv. um breytingu á lögum um Háskóla Íslands 13. des. 1984 og það var samþykkt og varð að lögum 1. apríl 1985. Önnur frumvörp lögðu þeir ekki fram, menntmrh. Sjálfstfl. í síðustu ríkisstjórnum, samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef fengið frá skrifstofu Alþingis og hef ég þó þann fyrirvara á að skrifstofa Alþingis hafi gefið mér réttar upplýsingar.
    Undir hitt vil ég taka að það kemur fyrir að stjórnarfrumvörp séu lögð fram alveg undir þinglok og sú gagnrýni hv. þm. á ríkisstjórnir á mismunandi tímum á því fyllilega rétt á sér. Ég tek undir gagnrýnina, en það er ekki það mál sem þessi þingmaður talaði sérstaklega um sem þar er þá um að ræða.
    Ég vil í öðru lagi, herra forseti, aðeins segja að sú starfsáætlun Alþingis sem lögð var fram nú í haust hefur í engu verið haldin og væri betur óútgefin vegna þess að það eru engar fréttir fyrir þingmenn að fundir séu í deildum og í Sþ. mánudag, þriðjudag, miðvikudag og fimmtudag og föstudag eftir því sem verkast vill. Þannig hefur það verið svo lengi sem ég man. Hins vegar eru hér nokkrir fastir punktar gefnir. 2. umr. fjárlaga 7. des. Hún fór ekki fram þá. 3. umr. fjárlaga 20. des. Hún fór ekki fram þá. Enginn fundur í janúar fyrr en 23. jan. Það fór ekki svo. Þing var kallað saman mig minnir að það hafi verið 29. jan., ég held að ég fari rétt með það, þannig að þing var kallað saman eftir áramót á öðrum degi en þar stendur. Hér er talað um að umræður um skýrslu um utanríkismál fari fram 16. og 17. mars. Þær umræður eiga að fara fram á mánudag og þriðjudag nk. Hér er talað um að vegáætlun verði samþykkt 28. apríl nk. Eftir þeim undirtektum sem vegáætlun fékk hjá framsóknarmönnum, hv. þm. Alexander Stefánssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni, stendur það auðvitað ekki. Á hinn bóginn á ég von á því að utanríkismálaumræðan geti farið fram á mánudag og þriðjudag. Það eina sem hefur staðið er það að það er gert vikuhlé vegna 37. þings Norðurlandaráðs í Stokkhólmi.
    Ég verð að segja það, herra forseti, að ég get ekki hugsað mér þær annir á Alþingi Íslendinga að Alþingi Íslendinga verði látið sitja fyrir þingi Norðurlandaráðs. Það bæri þá nýrra við. Ég hef ekki orðið var við annað en við verðum alltaf að hopa og hvika þegar þetta Norðurlandaþing kemur saman og hefur það þó satt að segja ekki orðið að því gagni sem vonir stóðu til.
    Svo er talað nú um það að þingi eigi að ljúka 6. maí. Formaður þingflokks Alþfl. hefur þegar lýst því yfir að það sé óraunhæf yfirlýsing. Þessi starfsáætlun verður einungis munuð í reikningum fyrir það hvað hún kostar, en enginn þingmaður tekur mark á henni

að öðru leyti en því að hér er ákveðið að deildir hittist þriðjudag og miðvikudag og hér er ákveðið í stórum dráttum að sameinað þing komi saman mánudag og fimmtudag.
    Ég vil segja í öðru lagi að mér þykir vænt um að hv. 3. þm. Vesturl. skuli segja að hann hafi lítið gert annað en taka tillit til óska Halldórs Blöndals. Það hafi kostað ómældan tíma og mikla þolinmæði. Ég verð á hinn bóginn að segja að til allrar hamingju hefur það komið fyrir oftar en einu sinni í deildinni í vetur að að umhugsunarefni hafa orðið frumvörp sem ég bað hv. formann nefndarinnar um að íhuga áður en málið var lagt fram við 2. umr. af því að í annað skiptið ráðherra Alþb. og í hitt skiptið ráðherra Framsfl. gerðu sér grein fyrir að frumvörpin gátu ekki gengið eins og meiri hl. fjh.- og viðskn. í annað skiptið og menntmn. í hitt skiptið gekk frá því.
    Ég hygg að það sé áreiðanlega rétt, sem þessi þingmaður segir, að það reynir á þolinmæðina hjá honum að hlusta á þá gagnrýni sem maður hlýtur að hafa uppi ekki aðeins um efni stjórnarfrumvarpa heldur líka um málatilbúnað og vinnubrögð oft og tíðum í þeim þingnefndum sem ég á sæti í og eiga að fjalla um hin viðurhlutamestu mál. Ég ítreka það sem ég sagði áðan: Þingmenn eru ekki bara tuskubrúður til að rétta upp hendina. Þingmenn eru í sæti dómarans. Þeim er ætlað að setja sig inn í mál og þeim er ætlað að íhuga það sem þeir eru að gera. Ég þakka formanni fjh.- og viðskn. og formanni menntmn. að vekja athygli á þeim mikla ágreiningi sem hefur orðið milli okkar beggja um vinnubrögð, ekki aðeins í þingdeildinni heldur líka í þingnefndum, færi honum kærar þakkir fyrir og tel að það sé jafnmikið hrós um mig að hafa þessi ummæli uppi eins og ég veit að hv. 8. þm. Reykv. Eyjólfur Konráð Jónsson hlýtur að hugleiða mjög alvarlega hvernig á því megi standa að formaður nefndarinnar skuli hrósa honum fyrir vinnubrögð.
    Það er tvennt enn sem ég hlýt að vekja athygli á. Annað er þetta: Það voru gerðir kjarasamningar milli fjmrh. og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Það er skoðun mín, herra forseti, að fjmrh. eigi að eigin hvötum og óbeðinn að gefa Alþingi skýrslu um þvílíka samningsgerð eftir að hún hefur farið fram. Ég hygg þess vegna að það sé hæstv. fjmrh. síst til sóma að þingmenn Kvennalistans skuli hafa þurft að biðja um skýrsluna og síður en svo
undrunarefni mitt að hæstv. fjmrh. skyldi hafa haldið þá ræðu sem hann flutti í Sþ. eftir að hv. þm. Kvennalistans hafði lokið máli sínu eins og Alþingi kæmi ekkert við hvaða samninga hann hefði gert við opinbera starfsmenn.
    Það er líka fáránlegt af formanni þingflokks Alþfl. að kenna stjórnarandstöðunni um það ef nægilega margir stjórnarþingmenn eru ekki mættir í Sþ. til þess að hægt sé að vísa þáltill. um vegáætlun til nefndar. Auðvitað er við stjórnarþingmenn sjálfa að sakast. Auðvitað ber þetta vitni þess að ráðherrarnir reka ekki trippin nógu vel. Ég held að það ætti að setja hausband á suma af þessum stjórnarþingmönnum til

þess að ráðherrarnir geti betur passað þá. ( KP: Hverja?) Ja, mér þætti nú vænt um ef sá sem grípur fram í, Karvel Pálmason, mætti sem mest leika lausum hala því að alltaf fellur mér best við hann þegar hann er frjáls að því sem hann segir og gerir.
    Hitt, sem ég hlýt að gagnrýna formann þingflokks Alþfl. fyrir, er að hann skuli draga hér inn í umræður að ég hafi beitt mér gegn því í gær að tvö þmfrv. kæmust til nefndar. Á undan þessum þmfrv. voru sjö stjfrv. á dagskránni. Ég gerði grein fyrir því eftir að klukkan var orðin 7 í gærkvöldi, herra forseti, að mér hefði ekki unnist tími til að setja mig inn í frumvarp hv. þm. til breytingar á lögum um umferðarlög, þskj. 706, þannig að ég var ekki í gærkvöldi viðbúinn því að geta tekið efnislegan þátt í umræðunum. Ég veit ekki betur en það sé hlutverk forseta deildarinnar að sjá um það við 1. umr. að þingmenn geti tekið efnislega þátt í umræðum um frv. Þar að auki lá það ljóst fyrir á þeim tíma sem um var að ræða að nægilega margir þingmenn voru ekki í húsinu til þess að greiða atkvæði um að frv. færi til 2. umr. og nefndar ef fundur hefði dregist á langinn eins og hann hlaut að gera. Um það hef ég fulla vitneskju þannig að útilokað var að frv. gæti komist til 2. umr. og nefndar.
    Í þriðja lagi þekki ég ekki þau vinnubrögð í fagnefndum eins og allshn. ef þar eru til umræðu frumvörp til breytinga á umferðarlögum eins og er nú frá hv. þm. Salome Þorkelsdóttur. Þá er auðvitað eðlilegt að allshn. taki jafnframt og um leið til athugunar önnur þau frumvörp sem fyrir liggja í þinginu um sama efni. Það er eðlilegt að allshn. Nd. veki athygli allshn. Ed. á frv. hv. þm. Inga Bjarnar Albertssonar sem hann hefur flutt einmitt um það mál þannig að það geti farið fram fagleg athugun og skoðun á slíkum frumvörpum öllum saman t.d. og um leið, þeim sem fram hafa komið, sem auðvitað eru ábendingar einstakra þingmanna um nauðsynlegar leiðréttingar á gildandi lögum. Það var því ekkert sem kom í veg fyrir það, hafi allshn. haldið fund síðar, að það frv. sem hv. þm. Eiður Guðnason hefur lagt fram eða hv. þm. Ingi Björn Albertsson hefur lagt fram í neðri deild, að allshn. hefði tekið bæði þessi frv. til meðferðar. Allra síst stendur á þessum hv. þm. að finna að því í sambandi við samvinnu við mig eða stjórnarandstöðuna í þessari deild að við höfum verið ósamvinnuþýð að þessu leyti. Hvað eftir annað hefur komið fyrir að þessi hv. þm. hefur fengið heimild til þess að taka fyrir í fjh.- og viðskn. efrideildarfrumvörp sem ekki hefur verið vísað þangað. Það lá jafnframt fyrir í sambandi við lánsfjárlögin að við sjálfstæðismenn buðum það að í neðri deild yrði frumvarp til lánsfjárlaga tekið fyrir í fjh.- og viðskn. neðri deildar til þess að hægt yrði að afgreiða það frumvarp sem lög frá Alþingi, lánsfjárlög, áður en hlé var gert á störfum Alþingis vegna þings Norðurlandaráðs vikuna frá 26. febr. til 4. mars. Það er þess vegna alrangt og algjörlega út í hött að við að þessu leyti höfum gert tilraun til þess að koma í veg fyrir eða raskað með nokkrum hætti

efnislegri vinnu og athugun á einstökum málum.