Varamenn taka þingsæti - rannsókn kjörbréfa
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Halldór Blöndal:
    Virðulegur forseti. Ég vil fyrst aðeins segja við hv. 5. þm. Norðurl. e. að ég tók eftir því að hann tók mjög undir óbeint og með sínum hætti þau ummæli og það mat sem formaður fjh.- og viðskn. hefur í sambandi við störf mín í þeirri nefnd og tekur þá um leið undir þau ummæli formanns nefndarinnar að hann hafi lítið annað gert en tekið tillit til óska Halldórs Blöndals og það hafi kostað ómældan tíma og mikla þolinmæði. Þannig að ég veit nú ekki hvernig hægt er að segja að það sé þá röggsamleg stjórn á fundunum ef formaðurinn hefur mestan part verið önnum kafinn við þetta.
    Hitt vil ég segja, herra forseti, að ég vil mótmæla þeim ummælum sem hv. 3. þm. Vesturl. hafði hér um ótilgreint og ókunnugt frumvarp fyrrv. menntmrh., Ragnhildar Helgadóttur, sem hún á að hafa viljað leggja fram tveim eða þremur dögum fyrir þinglausnir einhvern tíma. Ég hef reynt að grafast fyrir um hvort einhver flugufótur sé fyrir þessu og ég ... ( EG: Það var um íslenska málstöð.) Nú, er það já, um íslenska málstöð. Ég get alveg tekið undir það að það munum við sjálfstæðismenn ævinlega gera og samþykkja ef menn hafa einhverja þá tillögu fram að færa sem megi verða til styrktar íslenskri tungu með því að leggja stund á málrækt og efla nýyrðasmíð, þá má leggja slíkt frumvarp fram á síðustu stundu þingsins, síðasta klukkutímanum og við skulum greiða fyrir því.