Félagsmálaskóli alþýðu
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég tek undir orð 9. þm. Reykn. Karls Steinars Guðnasonar um það að hér sé um merkilegt mál að ræða sem er frv. til laga um Félagsmálaskóla alþýðu. Mér finnst það nokkuð táknrænt, svo að ekki sé meira sagt, hversu fáir hv. þm. eru í deildinni þegar þetta frv. er fram lagt. Við sem höfum starfað að verkalýðshreyfingunni vitum það að hér á hinu háa Alþingi á verkalýðshreyfingin því miður ekki sem stendur allt of marga málsvara. Hún á hér sem betur fer nokkra sem m.a. eru viðstaddir hér í deildinni í dag. Þar með er ég ekki að segja það að aðrir hv. þm. munu ekki ljá góðum málum lið sem snúa að verkalýðshreyfingunni, en mér finnst þetta lýsa nokkuð áhuga hv. þm. fyrir þessu ágæta máli að þeir skuli ekki vera fleiri hér til þess að taka þátt í umræðunni þegar frv. er lagt fram.
    Það er ekki ofsagt að íslensk verkalýðshreyfing og félagssamtök hennar, bæði Alþýðusamband Íslands og Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, sem og fleiri samtök, gegna mjög veigamiklu hlutverki í íslensku þjóðfélagi og störf þessara samtaka og einstakra félaga verkalýðshreyfingarinnar eru mjög þýðingarmikil fyrir íslenskt lýðræði. Verkalýðshreyfingin hefur til þessa þurft að standa svo til ein og óstudd að því að reka sína fræðslustarfsemi og væri hægt að rekja þá sögu langt aftur í tímann, með hvaða hætti það hefur verið gert. Skal það nú ekki gert að sinni. Hins vegar má segja það að þegar Menningar- og fræðslusamband alþýðu var stofnað árið 1968 fyrir tilstuðlan og af hálfu Alþýðusambands Íslands hafi verið stigið mjög merkt skref í þeim efnum sem m.a. kemur fram í frv. sem hér er til umræðu.
    MFA hefur gegnt mjög veigamiklu hlutverki fyrir íslenska verkalýðshreyfingu og ég vil ekki segja aðeins fyrir íslenska verkalýðshreyfingu heldur fyrir íslensku þjóðina í heild vegna þess að innan MFA hefur farið fram fræðsla og kynning á atriðum sem skipta mjög miklu máli í sambandi við störf verkalýðshreyfingarinnar og almenn samskipti við aðrar stéttir og þá ekki hvað síst í sambandi við samningagerð. Það er eiginlega hægt að segja það að eftir að Menningar- og fræðslusamband alþýðu tók til starfa hafi sú upplýsing og fræðsla farið fram innan verkalýðshreyfingarinnar, þ.e. þess hluta sem er innan ASÍ, sem hefur haft það í för með sér að verkalýðshreyfingin nálgast með allt öðrum hætti sína kjarasamninga en tíðkaðist hér áður fyrr. Ég vil þakka því m.a. að innan MFA hefur farið fram ákveðin fræðsla, skipuleg, um það með hvaða hætti væri hægt að ná jafngóðum og ef ekki betri árangri en áður tíðkaðist þegar allt lenti í hnút og verkalýðshreyfingin þurfti að fylgja sínum málum eftir á grundvelli verkfalla. En með aukinni fræðslu og menntun hefur forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar tekist að ná betri tökum á viðfangsefninu, jafnframt því sem skilningur hefur aukist hjá hinum almenna félagsmanni.
    Ég fagna því að þetta frv. skuli vera hér fram komið um Félagsmálaskóla alþýðu og mér finnst það

við hæfi að hið opinbera taki á málinu með þeim hætti sem fram kemur í frv.
    Eins og hæstv. ráðherra sagði í framsöguræðu sinni eru meginmarkmiðin í frv. flest hin sömu eins og voru þegar MFA var stofnað, enda hefur starfað að samningu frv. nefnd sem í hafa átt sæti menn sem hafa mikla reynslu í verkalýðshreyfingunni og vil ég, með leyfi forseta, lesa þá upp þannig að það komi fram í þingtíðindum hvaða aðilar hafa átt hér hlut að máli. Ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki gert það. Frv. er samið af starfshópi sem hæstv. núv. ríkisstjórn samþykkti að skipa að tillögu félmrh. Í starfshópnum, sem var skipaður 15. nóv. 1988, áttu sæti Helgi Guðmundsson, tilnefndur af Menningar- og fræðslusambandi alþýðu, Karl Steinar Guðnason, tilnefndur af þingflokki Alþfl., Ragnar Arnalds, tilnefndur af þingflokki Alþb., Þóra Hjaltadóttir, tilnefnd af þingflokki Framsfl., og Gylfi Kristinsson, skipaður formaður án tilnefningar. Allt hefur þetta fólk mikla reynslu og þekkingu í sambandi við verkalýðshreyfinguna og gildir einu þótt það sé --- þetta er að vísu faglega skipað, mundi hafa verið sagt, að undanskildu því að þarna er náttúrlega allt í einum lit. Þarna vantar að minni hyggju sjálfstæðismann. Það breytir þó engu um það að þetta er sameiginlegt átak verkalýðshreyfingarinnar og þessi nefnd hefur tekið tillit til þeirra meginatriða sem verkalýðshreyfingin kom sér saman um 1968 og við tókum öll þátt í sem þá vorum í forustu ASÍ.
    Ég ætla ekki að orðlengja þetta, virðulegi forseti. Ég vildi láta koma fram þá skoðun mína að ég styð frv. Það er spursmál um það hvar eigi að vista þessa stofnun. Þá kemur upp spurningin hvort þetta eigi að vera undir félmrn. eins og frv. gerir ráð fyrir eða menntmrn. Ég ætla að fá að athuga þetta svona í meðferð málsins hér í þinginu, hver mín skoðun verður á því, en líklegast er hyggilegt að vista það í félmrn. eins og gert er ráð fyrir.
    Að lokum, virðulegi forseti, þá lít ég á þetta sem mjög þýðingarmikið frv. í nútímaþjóðfélagi þar sem krafist er aukinnar menntunar á sviði félagslegra
samskipta og í öllu er lýtur að samningsgerð, því sem tengist beinum kjörum fólksins. Ég vil því segja að lokum og endurtaka það að frv. mun örugglega verða til styrktar því meginmarkmiði okkar að skapa meiri frið og öryggi á vinnumarkaðinum á grundvelli þess að fólk sé vel upplýst um rétt sinn, stöðu og möguleika í sambandi við afkomu sína og framtíðarkjör.