Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Geir H. Haarde:
    Herra forseti. Ég vildi beina til stjórnar þingsins þeirri spurningu hvaða nauður rekur til þess að halda sérstaka deildarfundi á föstudaginn. Sérstaklega í ljósi þess að forseti Sþ. hefur upplýst að það sé skilningur hennar að megnið af þeim stjfrv. sem hér hafa verið lögð fram séu aðeins til kynningar eða til sýnis. Mér hefur verið tjáð að það sé ráðgert að ræða skýrslu utanrrh. í Sþ. á mánudaginn. Þeirri skýrslu hefur ekki enn verið útbýtt og hygg ég að flestum þingmönnum veiti ekkert af að kynna sér hana fyrir þá umræðu, auk allra þeirra þingmála sem ríkisstjórnin hefur lagt fram til kynningar og sýnis, þannig að ég held að mönnum veiti ekkert af þeim tíma. Ég beini nú þeim tilmælum til þess fundar sem forseti Sþ. hefur boðað að haldinn verði að ákvörðun um að halda deildarfundi á föstudaginn verði endurskoðuð.
    Ég vil síðan taka undir þakkir til forseta deildarinnar fyrir að halda á dagskránni nokkrum þmfrv. Það eru að vísu tvö frv. þarna sem ég þekki til sem voru lögð fram hér þann 7. mars og forseti hafði tjáð mér að mundu komast á dagskrá í dag. Vænti ég þess að svo verði þó svo að ég geri mér grein fyrir því að ráðherrum Alþfl. er eflaust mikið kappsmál að koma frv. um hagstofnun landbúnaðarins til nefndar í dag.