Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Kristinn Pétursson:
    Háttv. forseti. Ég sé ástæðu til að minna á það í tilefni þessarar umræðu um þingsköp að það var löngu ljóst að það þyrfti að skipuleggja hvað ætti að afgreiða. Það kemur mér satt að segja á óvart að menn koma síðan hér og eru hálfhissa á því allt í einu að það skuli vera mikið eftir að afgreiða í þinginu. Ég vara við því að það sé verið að afgreiða í flaustri mál sem eru mikilvæg. Síðan þarf að fara að laga þetta allt saman eftir á eða lenda í einhverri handvömm. Það þarf að skipuleggja tímann vel til þess að nýtingartími á störfum þingsins geti orðið bærilegur. Það er of seint að ætla að fara að gera þetta allt í einu á elleftu stundu eins og nú er komið. En það verður að reyna að gera það besta úr þessu. Auðvitað veit ég að fólk reynir að gera það. En mér finnst bara allt of seint að fara að vakna upp við það allt í einu núna að nú þurfi að fara að skipuleggja hlutina. Það átti að vera búið að því.