Framlagning stjórnarfrumvarpa fyrir eindaga
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Kristín Halldórsdóttir:
    Virðulegi forseti. Ég skal ekki lengja þessar umræður mjög, enda, eins og hér hefur sannarlega komið fram, höfum við nóg annað að gera. Ég vil hins vegar þakka þeim sem hafa brugðist við þeim athugasemdum sem ég færði fram í upphafi þingfundar og gerðu það allir af miklum ágætum nema hv. síðasti ræðumaður sem kallaði það kjaftæði sem við höfum verið að ræða hérna. Ég held að hans orð byggist á algerum misskilningi. Það er ekki hægt fyrir þingdeildina að ráða þessu á þann hátt sem hann talar um. Það er ekki bara yfirstjórn þingdeildarinnar heldur samráðið sem við erum að kalla eftir. Það er það sem ég bað um og óska eftir og ætlast til, og það held ég að aðrir þingmenn taki undir, að það sé haft samráð við þingmenn um þetta.
    Það hefur komið í ljós í þessum umræðum að það hefur fleiri ofboðið en mér sú skæðadrífa þingmála sem hefur verið inn á okkar borð, jafnvel forseta sameinaðs Alþingis. Það er hins vegar misskilningur að ég sé beinlínis að gagnrýna það þó að hér komi fram mörg þingmál. Þau eru mörg góð og gegn. Það er hins vegar dálítið erfitt að horfa fram á að geta ekki kynnt sér þau almennilega ef á að ræða þau öll og þess vegna hljótum við að kalla eftir því að fá að vita hvaða þingmál á að ræða af þeirri alvöru að við getum búist við því að þau verði afgreidd í vor og þá vil ég enn leggja áherslu á að ég er að tala um samráð en ekki tilskipun að ofan um það hvaða þingmál eigi að afgreiða. Ég er sem sagt ekki að gagnrýna fjölda þingmálanna heldur skipulagninguna. Og ég þakka forsetum þingsins sem hér hafa tekið til máls og tekið undir þá ósk þingmanna að það verði meira um samráð en verið hefur.