Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Alexander Stefánsson:
    Herra forseti. Ég fagna þessu frv. sem hér liggur fyrir um hagstofnun landbúnaðarins. Ég vil geta þess að nefnd, sem vinnur að málefnum búnaðarfélagsins sem ég veiti forstöðu, var gerð að umtalsefni við afgreiðslu fjárlaga og við fjárlagaafgreiðsluna kom fram að þessi nefnd hefur með að gera tillögur um breytingar á skipulagsmálum landbúnaðarins. Það var gefin yfirlýsing um það við afgreiðslu fjárlaga að eitt af því sem nefndin hefur lagt til er það að setja upp hagstofnun á Hvanneyri og flytja þann þátt starfseminnar frá Búnaðarfélagi Íslands til Hvanneyrar. Þetta er þess vegna í fullu samræmi við það og raunar í samræmi við það sem hefur komið fram hjá samtökum landbúnaðarins að þörfin á þessu er mjög knýjandi. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni, hv. 7. þm. Norðurl. e., að auðvitað er það mál málanna fyrir landbúnaðinn í dag að auka ýmsa rannsóknarþætti og ekki síst gildi þess að fram fari hagrænar rannsóknir í sambandi við landbúnaðinn á Íslandi í nútíð og framtíð.
    Ég vil geta þess að þetta er einnig í samræmi við álit nefndar, sem hefur verið og er að störfum enn, sem er að fjalla um skipan og leiðbeiningarþjónustuna í landbúnaðinum, þar á meðal búnaðarsamböndin og hlutverk þeirra, og þetta er einmitt einn veigamikill þáttur í tillögum þessarar nefndar, sem er skipuð mjög hæfum mönnum, að eitt fyrsta skrefið verði það að setja upp hagstofnun landbúnaðarins á Hvanneyri.
    Það er eitt atriði sem ég vildi koma hér að nú við 1. umr. Það hefur komið fram gagnrýni frá búnaðarþingi að því er varðar skipan stjórnar fyrir þessa stofnun sem gerir ráð fyrir að þar verði fimm manna stjórn eins og kemur hér fram í II. kafla frv., í 3. gr. Búnaðarþing bendir á að það sé eðlilegra að þarna verði þriggja manna stjórn og vill mæla gegn því að fulltrúi frá Stéttarsambandi bænda eigi sæti í þessari stjórn. Í raun og veru get ég að mörgu leyti tekið undir þessa ályktun búnaðarþings. Mér finnst eðlilegra að þarna sé fyrst og fremst fulltrúi frá Búnaðarfélagi Íslands sem væri þá fulltrúi faglegra málefna bænda og annar tilnefndur af Hagstofu Íslands sem fulltrúi hagmála hins opinbera og hinn þriðji skipaður af landbrh. án tilnefningar. Þetta verður að sjálfsögðu skoðað nánar í landbn. þegar málið kemur þangað.
    Ég vil taka undir það að ég tel að það sé mjög brýnt að þetta mál fái greiða göngu hér í gegnum Alþingi. Það er búið að ræða þetta mál mjög mikið í samtökum bænda og í öllum stofnunum landbúnaðarins á undanförnum árum og ég þarf ekki við það að bæta.
    Ég vil svo að lokum segja að það er ákaflega mikilvægt fyrir bændasamtökin og landbúnaðarmálin yfirleitt að efla þær stofnanir sem landbúnaðurinn hefur komið upp úti um landið, ekki síst búnaðarskólana. Ég vil minna á að það er mjög öflug og vaxandi starfsemi við Bændaskólann á Hvanneyri. Eins og allir vita fer þar einnig fram háskólanám í búvísindum og þar fer fram vaxandi

rannsóknastarfsemi sem er mjög mikilvæg fyrir landbúnaðinn í heild. Ég vil minna á að það er þörf á því að fara að undirbúa meiri flutning af rannsóknastarfsemi landbúnaðarins frá Reykjavík út um landið og þá ekki síst til bændaskólanna og þá sérstaklega til Hvanneyrar sem hefur alla möguleika á að taka á móti slíkri starfsemi. Auðvitað þarf að stefna að því að starfsemi RALA hér á Keldnaholti fari smátt og smátt á vissu tímabili öll frá Reykjavík og út í þessar stofnanir úti á landi. Það er miklu hagstæðara. Þarna er bæði til staðar húsnæði og sérmenntað fólk og það fólk sem kemur til með að starfa við hagstofnun landbúnaðarins nýtist örugglega að verulegu leyti við kennslustörf við bútæknistofnun þar sem fer fram hagfræðikennsla og allt sem tengist þessu starfi sem hér er verið að tala um að flytja þangað upp eftir.
    Ég vil endurtaka að ég fagna mjög þessu frv. og vænti þess að það fái góða afgreiðslu hér á hv. Alþingi.