Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu, en hv. þm. Hreggviður Jónsson taldi sig tala um þessi mál af mikilli þekkingu (HJ: Það sagði þingmaðurinn aldrei.) og hann vissi um verðlag á landbúnaðarvörum, hvernig það er í heiminum, og fullyrti að það væri hæst hér á Íslandi. Hann fullyrti einnig að það væru engin frjáls félagasamtök hjá bændum. Í raun og veru þarf ekki að ræða meira um þessa ræðu. ( HJ: Er það ekki rétt?) Maður sem talar svona og telur sig vita allt um hlutina og metur svo að það sé ársverk fyrir einn mann að athuga og koma með niðurstöður í þessu máli hefur sjálfur dæmt sinn málflutning.
    Það sem liggur á bak við frv. er það að svo eru lög í landi okkar að bændasamtökin semja við ríkisvaldið um verðið. Það er verið að reyna að sýna að það sé trúverðug niðurstaða, það séu trúverðugar upplýsingar sem liggja á bak við slíka samninga. Ekki er ég að halda því fram að niðurstöður sem hafa komið frá Búnaðarfélaginu séu ekki réttar. En þær eru vefengdar. Þess vegna er verið að reyna að fá annan aðila til að undirbyggja þessa samninga. Ég held að það sé rétt og ég get tekið undir flest af því sem ræðumenn hafa hér sagt um þetta mál.
    En það var gaman að heyra í hv. 1. þm. Reykv. áðan. Hann var auðvitað með málinu, en hann talaði svo á móti því allan tímann. Ég þarf ekki að ræða meira um hans ræðu. Þeir fáu sem voru hér inni og hlustuðu á hana hafa skilið alveg hvað á bak við lá.
    Ég get tekið undir með hv. þm. Alexander Stefánssyni að það hefði verið eðlilegra að í stjórninni væri fulltrúi frá Búnaðarfélaginu en Stéttarsambandinu. Ég ætla ekki að færa mikil rök fyrir því. Það er svo augljóst mál af því að Stéttarsambandið er hin hagsmunalegu samtök en hitt hin faglegu.
    Hv. 1. þm. Reykv. spurði einnar athyglisverðrar spurningar. Hann sagði: Hvað verður svo framhaldið? Ég vona að framhaldið verði það að fleiri stofnanir landbúnaðarins verði færðar út á land. Ég vona að þær verði fluttar, sumar af þeim, á Hvanneyri en sumar líka annað. Ég held að þessar rannsóknastofnanir þurfi að vera nærri vettvangi, þurfi að vera í öllum landsfjórðungum. Það er líka vísir að þeim þar. En tilhneiging hefur verið til þess á síðustu árum að draga þær frá landinu til höfuðborgarinnar eins og allt annað. Ég vona sannarlega að hæstv. landbrh. láti ekki deigan síga í þessu efni og flytji t.d. Rannsóknastofnun landbúnaðarins út á land eftir því sem við á en hún sé ekki á höfuðborgarsvæðinu --- ja, sumir hafa sagt með lokaðar dyr að vissu leyti og glugga.