Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég þakka þá umræðu sem hér hefur orðið um þetta mál og vil svara þeim spurningum sem til mín var beint eftir því sem það er í mínu valdi.
    Ég vil fyrst þakka að flestir ræðumenn tóku --- a.m.k. framan af umræðunni --- vel þessu frv. og viðurkenndu nauðsyn þess að taka á þeim málum sem þar er fjallað um. Þó sýndist sumum að það þyrfti að hyggja að því hvort það væri rétt staðsetning á þessari starfsemi að hún færi fram í stofnun í tengslum við landbúnaðinn sjálfan og hvort ekki væri nær verksviði annarra aðila að sjá um hinn opinbera hluta málsins og atvinnugreinarinnar sjálfrar að sinna sínum málum.
    Hv. 1. þm. Reykv. spurði hvort þess yrði þá að vænta að settar yrðu á stofn hagstofnanir fyrir allar aðrar atvinnugreinar eftir að hann hafði að vísu um hríð rætt nokkuð við Alþfl. að honum fjarstöddum. Ég ætla ekki að blanda mér í þá umræðu, en tek það fram að þingmenn og ráðherrar Alþfl. hafa samþykkt að þetta frv. verði lagt fram sem stjfrv., en um það hefur verið talað að verði um það mikill ágreiningur verði ekki lögð áhersla á afgreiðslu þess á þessu þingi. Ég hef þó gert mér vissar vonir um það, m.a. eftir að hafa heyrt hér hljóðið í nokkrum hv. ræðumönnum, þar á meðal tveimur virtum þingmönnum Sjálfstfl., að um það kynni að geta skapast góð pólitísk samstaða hér á þingi að afgreiða málið. Það kemur í ljós þegar á reynir.
    En hér er um það að ræða, sem reyndar hv. 1. þm. Reykv. sjálfur gat um, að verið er að endurskipuleggja starfsemi sem þegar er fyrir hendi og þegar er kostuð af ríkinu. Reyndar felur þetta frv. í sér að hluta til minnkaða þátttöku ríkisins í þessari starfsemi þar sem gert er ráð fyrir að ákveðinn stuðningur við búreikningafærslur, sem nú er greiddur að fullu, verði einungis greiddur að tilteknum hundraðshluta samkvæmt þessu frv. Jafnframt er gert ráð fyrir því að þessi starfsemi verði samnýtt af kennslu Bændaskólans á Hvanneyri, framhaldsnámsins þar, háskólanámsins í búvísindum, hins eina á Íslandi, og um það verður varla deilt að það hlýtur að vera hlutverk ríkisins að sjá fyrir menntun á þessu sviði eins og í öðrum tilvikum. Ég hygg að að þessu leyti hljóti a.m.k. hv. 1. þm. Reykv. að geta litið á þá hreyfingu sem málið felur í sér í rétta átt.
    Þá er og þess að geta að uppbygging þessara mála hefur verið með nokkuð öðrum hætti í landbúnaðinum en í öðrum atvinnugreinum og meira af upplýsingasöfnuninni sjálfri hefur farið fram á vegum eða í tengslum við atvinnugreinina en víða í öðrum greinum. Að vísu er það svo að bæði Þjóðhagsstofnun og Hagstofa Íslands og fleiri aðilar vinna ýmsar upplýsingar, safna þeim saman og jafnvel vinna úr þeim í samvinnu við og með tilstyrk ýmissa faglegra aðila. Ég hygg til að mynda að það sé talsvert samstarf á milli Fiskifélags Íslands og aðila sem afla upplýsinga og halda saman upplýsingum á því sviði. Þá er og viðurkennt að stofnanir eins og Þjóðhagsstofnun og Byggðastofnun, Hagstofan og

fleiri eru miklum mun uppteknari af vinnslu gagna sem tengjast t.a.m. sjávarútveginum en svo nefndur sé landbúnaðurinn. Ég hygg að hv. 1. þm. Reykv. geti fengið það viðurkennt af yfirmönnum þeirra stofnana að þeir hafa í tiltölulega litlum mæli sinnt landbúnaðinum á sambærilegan hátt og þeir gera t.d. sjávarútveginum. Ég hygg að flestir sem þekkja til starfsemi þessara stofnana, sérstaklega Þjóðhagsstofnunar, viti að þar er unnið gríðarlega mikið starf af hinu opinbera sem að verulegu leyti skarast við það sem hagstofnun landbúnaðarins er ætlað að vinna.
    Það má út af fyrir sig deila um hvort þetta sé hið heppilega fyrirkomulag og ekkert óeðlilegt að þær spurningar séu hér bornar fram sem hv. 1. þm. Reykv. gerði. En ég minni þá á það og höfða til þess að það hefur verið staðið að þessum hlutum með sitt hverjum hættinum hvað snertir hverja atvinnugrein og þó að það sé alltaf gott að menn vilji samræma hlutina þá er nú samt sem áður oft líka nauðsynlegt að taka tillit til þess að einstakir aðilar, einstakar atvinnugreinar geta haft sérstöðu og hafa farið nokkuð sínar eigin leiðir eða aðrar leiðir en venjan er. Ég svara því nú þannig að í þessu frv. og tilvist þess felst ekki á nokkurn hátt vísbending um einhverja víðtækari stefnubreytingu af því tagi að væntanlegar séu sérstakar hagstofnanir hinna ólíku atvinnugreina. Það hlýtur fyrst og fremst að taka mið af eðli og aðstæðum máls í hverju tilviki.
    Ég gat þess að ætlunin væri að þessi stofnun, sem yrði fyrst og fremst fagleg hagstofnun, mundi vinna í nánu samstarfi við þá aðila sem halda saman hinum þjóðhagslegu upplýsingum um landbúnaðinn, Hagstofuna og Þjóðhagsstofnun og reynt yrði að tryggja að söfnun upplýsinga og skráning þeirra væri á samræmdu formi sem mundi nýtast í slíkum tilvikum. Ég vona að þetta svari að einhverju leyti spurningum og vangaveltum hv. 1. þm. Reykv.
    Hv. 7. þm. Norðurl. e. vék að því og benti réttilega á að í frv. er ekki gert ráð fyrir því sérstaklega að komið verði upp húsnæði fyrir starfsemi hagstofnunar á Hvanneyri. Ég svara því einfaldlega þannig að fyrst um sinn a.m.k. er gert ráð fyrir því að þau mál yrðu leyst í samstarfi við
Bændaskólann á Hvanneyri. Ég hef fyrir því vilyrði þeirra manna sem þar ráða húsum að það yrði reynt að taka á þeim hlutum með miklum velvilja og ætla má að það gæti tekist bærilega a.m.k. fyrsta kastið að nýta húsnæði sem þar er fyrir, enda mega þröngt sáttir sitja og það er von okkar og trú að hið besta samkomulag og samstarf gæti orðið með hagstofnun og Bændaskólanum á Hvanneyri.
    Þá held ég að ég hafi svarað því sem kalla má beinar spurningar er að mér beindust og vona svo að hv. landbn. geti tekið þetta mál til vandaðrar meðferðar.