Hagþjónusta landbúnaðarins
Miðvikudaginn 12. apríl 1989

     Benedikt Bogason:
    Herra forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir að hafa fríað mig í þetta skipti við að þurfa að lesa út úr andlitinu á honum hvað hann meinti og þakka honum fyrir það. Hann getur ekki sagt sína stefnu í þessu máli og hann getur ekki sett fram stefnu Sjálfstfl. Við skulum vona að í þeirri umræðu sem verður um þetta takist Sjálfstfl. eins og svo oft áður að brúa bil milli sjónarmiða landsbyggðar og þéttbýlis svo að þetta þurfi ekki að verða ásteytingarsteinn. En ég endurtek að það var einmitt þessi ræða Friðriks Sophussonar sem fékk mig til þess að tjá mig um þetta mál. Eins og ég sagði hafði ég ekki náð að lesa frv. nema renna augunum yfir það í sætinu og það er engan veginn nóg þegar um svona merkileg mál er að ræða.
    Varðandi stefnu Borgfl. í þessu máli kom greinilega fram hjá hv. 11. þm. Reykn. Hreggviði Jónssyni að það virðist vera áherslumunur milli okkar í sumum málum landbúnaðarins. Það er ekkert nýtt. Við höfum oft rætt og erum menn til að ræða um þau mál sem önnur innan flokksins. Ég man ekki betur en við Hreggviður sætum saman með fleirum kvöldstund fyrir landsfund okkar og ræddum heildarstefnu í landbúnaðinum þannig að ég held að ég geti sparað hv. 1. þm. Reykv. áhyggjur út af þessu. Ég held að það sé ekki neitt sem skiptir verulegu máli sem bar á milli.
    Ég held það sé frekar ágreiningur á milli mín og hans og kannski pínulítið önnur yfirsýn á þennan þróunarferil landbúnaðarins. Ég starfaði á sínum tíma og sérhæfði mig við nám í sambandi við landbúnað og m.a. kynnti ég mér landbúnaðarhagfræði eins og hún var matreidd á Norðurlöndunum á árunum eftir stríð og starfaði um hríð fyrir landbúnaðinn. Ég verð að segja að mér fannst afskaplega miklu ábótavant í einmitt arðsemishugsun í ýmsum þeim þáttum sem margir hafa gagnrýnt í landbúnaðinum og mér hefur fundist þróunin vera allt of hæg. Ég sé fyrir mér að slík stofnun á Hvanneyri gæti einmitt þróað þessi mál. Ég held að það sé viss misskilningur í sambandi við hvaða feril þarf. Eins og ég benti á í sambandi við ákvörðun fiskverðs, þá er afskaplega erfitt fyrir góða menn, fyrir toppsérfræðinga hjá Þjóðhagsstofnun, að þurfa að reikna út úr gögnum sem eru eins eða eins og hálfs árs gömul. Hvað um tengsl búnaðarsambandanna við búvísindadeildina á Hvanneyri? Ég minni á viðskiptadeildina við Háskólann, hvaða tengsl hún hefur t.d. við ýmsar stofnanir viðskiptalífsins. Ég held að það sé mjög verðmætt. Þetta er alveg hliðstætt. Með úrvinnslu nýrra og mikilvægra gagna verður auðveldara fyrir stjórnmálamenn og ráðamenn að taka ákvarðanir og móta stefnuna í þessum málum.
    Hv. 1. þm. Reykv., Friðrik Sophusson, vildi vita miklu meira. Hann er svo andskoti forvitinn. Það var ekki bara að hann vildi vita hvað Alþfl. er að hugsa heldur líka hvað Borgfl. er að hugsa. Ég get ekki undir þessum dagskrárlið farið að gefa út neinar sérstakar yfirlýsingar aðrar en þær yfirlýsingar sem hafa gilt varðandi Borgfl. og það gildir líka gagnvart

Sjálfstfl. Það hefur verið alveg grundvallaratriði að við erum til viðræðu málefnalega við hvern sem er stjórnmálaflokka eða afla án tillits til flokksskírteina. Á sama hátt hefur einstaka sinnum komið fyrir þrátt fyrir járnagann í Sjálfstfl. að sumir sjálfstæðismenn hafa kosið með ríkisstjórninni í sumum málum eða setið hjá. Það er á afskaplega hliðstæðum grundvelli sem Borgfl. hefur starfað, en þó kannski þannig að Borgfl. er nýr flokkur og leggur áherslu á sjálfstæði einstaklingsins, minni áherslu á þann járnaga og skoðanahlekki sem sumir af gömlu flokkunum virðast telja nauðsynlegt til þess að þeir geti yfirleitt haft tök á sínum málum. Við höfum álitið okkur hafa burði til að hafa mismunandi skoðanir í ýmsum málum, en við höfum reynt að ræða þau og komast að niðurstöðu. Það er ekkert lýðræði í þessu landi ef einstaklingar mega ekki standa á sínum skoðunum. En hitt er annað að af nauðsynlegum stjórnskipulegum ástæðum þurfa menn alltaf að komast að einhverju samkomulagi. Það liggur í hlutarins eðli.
    Að öðru leyti er ég fús til þess, bæði prívat og opinberlega, að uppfræða hv. 1. þm. Reykv. meira um Borgfl. Það er ekki víst að hann hafi kynnt sér ofan í kjölinn hvað hann er og hefur gert. Ég er fús til þessa. En ég ætla ekki að fara að eyða tíma hv. Alþingis í það undir þessum lið.