Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Skúli Alexandersson:
    Virðulegi forseti. Það gerist a.m.k. einu sinni á hverju þingi að fram koma tillögur um stórvegaframkvæmdir. Í fyrra var það vegaframkvæmd um hálendið, hin mikla nauðsyn á því að tengja Norðurland og Austurland við Suðurland, m.a. til að auka ferðamannastrauminn á Suðurlandi, með stórkostlegum vegaframkvæmdum á hálendinu.
    Núna kemur fram fsp. um hvað gangi og hvað áætlað sé að kosti að byggja veg með suðurströndinni frá Þorlákshöfn til Grindavíkur. Þetta er reyndar ekki alveg utan byggðar en ekki er byggðin mikil á þessu svæði. Mér finnst í sannleika sagt mjög merkilegt að umræða sem þessi skuli vera næstum því árviss á meðan stórir kaflar á almennum vegum á landinu eru óuppbyggðir og næstum því ókeyrandi. Það væri kannski nær að spyrja ákveðið um það ár eftir ár hvenær t.d. Vestlendingar eiga von á því að vegur um Mýrar verði byggður upp þannig að hann verði sæmilega ökufær. Eins um ákveðin vegasvæði á Vestfjörðum, Austfjörðum og Norðurlandi, Öxnadalsheiði. Á svæði eins og Öxnadalsheiði er óbyggður vegur næstum því. Svona ,,útópíu``-hugmyndir held ég að tilheyri öðrum tíma en deginum í dag.