Vegur milli Þorlákshafnar og Grindavíkur
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Karl Steinar Guðnason:
    Frú forseti. Á síðasta þingi mun hafa verið samþykkt þál. er varðar þann veg er getið er um í fyrirspurninni milli Þorlákshafnar og Grindavíkur. Ég hafði á orði þá að það væri óþarfi að samþykkja sérstaka þál. um það. Það væri hægt að hringja upp í Vegagerð og fá þetta, þeir hefðu þetta. Ég hygg að svo sé enn í dag. En þessi þál. var samþykkt.
    Það hlýtur að koma í hlut þingmanna Reyknesinga að ákveða hvar verði lagðir vegir í þeirra kjördæmi, hvað hafi forgang, og svo mun verða áfram. Ég tel að þessi hugmynd, sem er alls ekki ný og var ekki ný heldur í fyrra, að leggja veg milli Suðurlandskjördæmis og Reykjaneskjördæmis, þ.e. Þorlákshafnar og Grindavíkur, sé mjög góðra gjalda verð og hljóti að koma að því að svo verði gert áður en langur tími líður vegna fiskflutninga og annars. En ég ítreka að forgangsröðin hefur verið önnur hjá þingmönnum Reyknesinga og við teljum að hin mikla umferð sem í kjördæminu er, mjög mikil umferð, hljóti að hafa forgang hvað úrbætur í vegamálum snertir. Þá vil ég nefna t.d. tvöföldun Reykjanesbrautar, sem er mjög brýnt verkefni og skortir mikið fé í, og aðkomuna að Reykjavík þar sem vandamálin eru óteljandi, slys hörmuleg og akstur mjög þungur.
    Ég vænti þess að þingmenn annarra kjördæma þurfi ekki að hafa áhyggjur heldur af okkar forgangi í Reykjanesi og ekki heldur áhyggjur af því að vegur um Mýrar komist ekki á ef þingmenn Vesturlands láta það undan löngunum sínum að sá vegur verði settur í forgangsröð.