Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Eyjólfur Konráð Jónsson:
    Hæstv. forseti. Mig langar aðeins að gera litla athugasemd við þau ummæli hæstv. ráðherra, ef ég hef skilið hann rétt sem ég held að hljóti nú að vera, að lífskjör væru svo miklu betri á Íslandi en á Bretlandseyjum og þá væntanlega launakjör að við gætum borgað hærra verð fyrir matvöru. Ég efast um að þetta fái staðist. Og að skýring á því að vöruverð sé lægra í Bretlandi, t.d. á matvörum, en hér væri í því fólgin að Bretar gætu flutt inn frá fyrrum nýlendum sínum miklu ódýrara en aðrir efast ég líka um að sé rétt. Ég var nokkra daga í Þýskalandi, í öðru Evrópubandalagsríki, og það er sama sagan þar. Matvörurnar eru miklu, miklu ódýrari.
    Við skulum sleppa kjötvörunum og mjólkurvörunum. En allar aðrar matvörur almennt eru líka miklu ódýrari. Ég gagnrýni það líka að ráðherrann skyldi ekki víkja að því, sem frsm. þó minntist á, hver væri skattlagning á matvörum í Evrópubandalagsríkjunum. Það var þegar síðasta ríkisstjórn var, og var ég nú stuðningsmaður hennar þrátt fyrir allt og alla, að verið var að reyna að sannfæra menn um að það væri nauðsynlegt að hafa sama skatt á matvörur og brýnustu nauðsynjar og jafnvel á lúxusvörur, sama söluskatt eða virðisaukaskatt. Þetta er mesta fásinna.
    Það hefur komið fram að það eru engir slíkir skattar í Bretlandi. Evrópubandalagið hefur sett upp þá reglu að á matvörur og aðrar brýnar nauðsynjar, eins og húshitun, almenningssamgöngur og slíkt, megi virðisaukaskattur ekki vera nema 4 til 9% að vísu og á aðrar vörur 14--20%. Við erum að tala um að við ættum að reyna að nálgast Evrópubandalagið með þessum hætti, með ýmiss konar samræmingu á sköttum og stöðlum og slíku. Ég er ekkert á móti því, síður en svo. En það er alveg ljóst að það eru hinir gífurlegu skattar, beinir og óbeinir, sérstaklega á nauðsynjavörur, sem fara verst með alþýðu manna og auðvitað er það láglaunafólkið sem það bitnar fyrst og fremst á því að það er rétt að stærsti hlutinn af launum láglaunafólks fer í matvæli, en miklu minni hundraðshluti af launum mínum og annarra, sem verða að teljast hátekjufólk, fer í mat en stórra fjölskyldna sem þurfa að búa við kannski 50, 60, 70 þús. kr. laun þó að bæði hjónin reyni að vinna úti. Þar fer helmingurinn í matvæli og hitt í skatta meira og minna.