Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Hér fyrir framan okkur liggja mjög fróðlegar upplýsingar og væri hægt að ræða þær fram og til baka og drepa á eitt og annað. Mér er ljóst að til þess er kannski ekki tími núna, en get þó ekki stillt mig um að það hvarflar að mér að ein af ástæðunum fyrir háu matvælaverði hér á landi séu kröfur heilbrigðisyfirvalda í þessu landi sem eru langt fram yfir það sem ,,normalt`` getur talist.
    Það liggur fyrir ef farið er yfir skýrslur mjólkurbúa að býli sem hafa verið dæmd með ónýt fjós hafa skilað ár eftir ár mjólk með minna gerlainnihaldi en þeir sem hafa verið í góðum fjósum. Það er nefnilega hinn mannlegi þáttur sem skiptir höfuðmáli. Það liggur líka fyrir að kröfurnar um sláturhúsabyggingar í þessu landi hafa verið gegndarlausar. Þær voru miðaðar á tímabili við það hvað Bandaríkjamenn e.t.v. mundu gera en framkvæmdu svo aldrei vegna þess að þeim þótti það of dýrt en við sátum uppi með að þurfa að framkvæma þetta. Ég held að menn mættu hugleiða í fúlustu alvöru hvort land jafnnorðarlega og þetta, þar sem hætta á því að matvæli skemmist er þess vegna minni en annars staðar, eigi að sitja uppi með einhverjar hörðustu reglur í heimi á þessu sviði.
    En ég vek athygli á öðru sem stingur mjög í augu og það er t.d. verð á appelsínum. Það verður ekki skýrt með matarskattinum hvers vegna Glasgow borgar ekki nema 41,65 kr. fyrir kg af appelsínunum. Það verður ekki heldur skýrt með því að það séu einhver sérstök vandamál í flutningum á appelsínum til Íslands. Þarna er eitthvað að í okkar kerfi nema þá skýringin sé sú, sem ég ætla ekki að fortaka að geti verið hugsanleg, að Suður-Afríka selji appelsínur á lægra verði en aðrir og Thatcher klígi ekkert við að kaupa þær þaðan. Það getur vel verið að það sé skýringin. Og sakna ég mjög fróðs manns héðan úr salnum úr utanrmn. sem e.t.v. vissi þetta.
En það er fleira sem hér vekur athygli. Hvað með hveitið? Ekki búum við við það að innlendir bændur framleiði hér hveiti á miklu hærra verði en aðrir. Ekki búum við við það. En munurinn á heilhveitibrauðinu er ekkert smáræði. Það mætti ætla að við keyptum hveiti frá Grænlandi. Það er eitthvað stórt og mikið að í þessum efnum.