Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég vil af tilefni þeirrar fróðlegu umræðu sem hér fer fram aðeins rifja upp hvaða rammi er dreginn í þingsköpum um svar við munnlegum fyrirspurnum sem kallaðar eru eða munnleg svör. Í þingsköpum segir: ,,Fyrirspyrjandi eða framsögumaður fyrirspyrjanda mælir fyrir fyrirspurn. Ráðherra, er hlut á að máli, svarar síðan fyrirspurn. Hvor um sig, fyrirspyrjandi og ráðherra, má ekki tala oftar en tvisvar, fyrirspyrjandi eigi lengur en tvær mínútur og ráðherra eigi lengur en fimm mínútur í senn. Öðrum þingmönnum er heimilt að gera stutta athugasemd.``
    Þetta er ákvæði þingskapa um þessi efni. Ef ég man rétt voru við breytingu á þingsköpum 1985 þrengdar verulega reglur um fyrirspurnir. Ég minnist ágætra umræðna, allt að klukkutíma almennra umræðna í sameinuðu þingi af tilefni fyrirspurna, og mér sýnist að við séum að fara hér í sama farið. Það er út af fyrir sig spurning hvort það eigi ekki að heimila, en það þarf þá að vera skýrt. Mér sýnist að sú umræða sem hér hefur farið fram um þetta viðamikla mál, umræða sem er allrar athygli verð, stefni gegn því sem var verið að breyta 1985 í sambandi við fyrirspurnir. Hér hafa menn gert athugasemdir sem falla inn í þann tíma sem fyrirspyrjanda sjálfum er ætlaður. Ég hygg að ráðherra hafi talað í þriðja sinn án þess að ég hafi fylgst náið með því, gert örstutta athugasemd sem fór vel yfir tímamörk.
    Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu því að það verður eitt yfir alla að ganga í þessum efnum og við þurfum að átta okkur á hvaða svigrúm við höfum til þess að taka á málum með þeim hætti sem við erum að gera hér og hefur verið gert áður í vetur af tilefni einstakra fsp.
    Þetta er ekki sagt vegna þess að málið verðskuldi ekki umræðu heldur vil ég vekja athygli á þessu því að þetta rýmkar verulega þann tíma sem við höfum að jafnaði tekið undir þetta form umræðu. ( ÓÞÞ: Við höfum réttlátan forseta.)