Verð á matvælum
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Benedikt Bogason:
    Hæstv. forseti. Ég get ekki stillt mig um að koma með smáathugasemd varðandi skýringar hæstv. viðskrh. Auðvitað er það okurháa matarverð á Íslandi, sem er með því hæsta sem maður þekkir í nágrannalöndunum, af ýmsum orsökum, ekki bara einni. Það er auðvelt að sjá að það verður 25% hærra verð ef lagt er ofan á kostnað vörunnar 25%. Það þýðir ekkert að fela það. Ég fór að reikna að gamni hvað t.d. mjólkin mundi kosta ef það væri enginn söluskattur, 41,60 kr., lægri en í Osló, jógúrt 28,80 kr. Appelsínurnar hérna mundu kosta 72,67 en ekki 90,86 kr. ef það væri enginn söluskattur á matvæli eins og var. Þetta er heilmikið og þetta munar láglaunafólk um þar sem matvæli eru kannski upp undir helmingur eða a.m.k. 40% af útgjöldunum. Auðvitað kemur þetta fyrst og fremst til góða láglaunafólki. En það er annað. Það er hinn mikli vaxtakostnaður hérna sem hefur mikil áhrif á framleiðsluverð vörunnar. Ef tekst að lækka vexti og beisla vaxtaófreskjuna verður líka lækkun. En það er ekki hægt að blekkja menn með því að staðhæfa að 25% skattur ofan á allt hafi ekkert að segja. Það er hrein firra.