Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Það gerðist á haustdögum snemma á þessu þingi að fram fór einhver undarlegasta umræða sem menn muna. Hæstv. viðskrh. hafði látið þau gáleysislegu ummæli falla að e.t.v. væri eina ráðið að efna til herferðar almennings um að hann hætti að kaupa kjöt af þeim dýrum sem alin eru á beit afrétta í uppblásturshættu. Ráðherrann tók fram að hann ætti bæði við afurðir sauðfjár og hrossa. Í kjölfar þessara umræðna hófst enn ein harkalegasta áróðursherferð á hendur bændum sem gróðurníðingum.
    Þeim mun alvarlegri voru ummæli ráðherrans að hann gaf til kynna að hann sækti þessa vitneskju ekki síst til eins af aðalsérfræðingum RALA sem starfað hefur að gróðurmati og beitarþolsrannsóknum.
    Bændum féll þessi umræða þungt. Þeir hafa á síðustu árum hneigt búhætti sína til meiri beitarstjórnar og töldu sig hafa í höndunum beitarþolsmat frá RALA. Auk þess hefur sauðfé fækkað stórlega á síðustu árum. Í framhaldi af þessum ummælum lagði ég fram fyrirspurn til hæstv. landbrh. um hversu mörgu sauðfé mætti beita á einstaka afrétti landsins svo og hvaða rannsóknaraðferðum sé beitt við mat á beitarþoli. Svar barst og er á þskj. 569. Þar kemur fram, og varð ég aldeilis undrandi, að aðeins liggur fyrir ítala af fimm afréttum í landinu, Landmannaafrétti, afrétti Kolbeinsstaðahrepps, Auðkúluheiði, Eyvindarstaðaheiði og afréttarlöndum Hólshrepps í Suður-Þingeyjarsýslu.
    Nú er það ljóst að áætlaðar virkjunarframkvæmdir hafa gert það að verkum að Auðkúlu- og Eyvindarstaðaheiðar voru í þessum hópi. Er að undra, hæstv. ráðherra, þó maður spyrji: Hvert hefur verið þeirra starf í 30 sumur? Og þarf nokkur að undrast það þótt ég hafi lagt fram aðra fsp. og spyrji hæstv. ráðherra á þskj. 618 hvort hann muni beita sér fyrir því að unnið verði beitarþolsmat, byggt á traustum vísindalegum grundvelli, af öllum afréttum landsins? Þarf nokkur að vera undrandi, miðað við fyrirliggjandi svar og orðróm og fullyrðingar sem margir telja að séu runnar undan rifjum sérfræðinga RALA og hafa orðið til að villa og trylla umræðuna og espa almenning upp gegn bændastéttinni, þó ég fari þess á leit við hæstv. ráðherra að hann beiti sér fyrir könnun óháðra aðila á starfsemi rannsóknastofnana landbúnaðarins og annarra stofnana á þessu sviði þar sem m.a. verður leitað umsagna um rannsóknaraðferðir og hagnýtt gildi niðurstaðna?
    Búnaðarþing tók undir þessa skoðun og sagði m.a. í ályktun þess, með leyfi forseta:
    ,,Það er eðlilegt að bændum bregði í brún þegar þeir heyra og það jafnvel frá þeim sem afhentu þeim á sínum tíma beitarþolsmatið að lönd þeirra beri hvað sem tölum líður litla sem enga beit og þeir séu að eyðileggja landið. Búnaðarþing leggur til að þær stofnanir sem þessi mál varða leysi þetta ágreiningsmál. Allar þær stofnanir sem við þessi mál starfa heyra undir hæstv. ráðherra. Því er það skylda hans að láta óháðan aðila kanna þennan ágreining og setja ágreininginn niður. Hér verður að skipa nefnd

óháðra aðila.
    Sameiginlegt ætlunarverk allra þessara stofnana er þjónusta við landbúnað, samtíðar og framtíðar. Þær verða einnig að taka höndum saman, þessar stofnanir, um að sýna þjóðinni sem réttasta mynd af sambúð lands og landbúnaðar og leiðrétta það spégler sem fjölmiðlar bregða fyrir augu þjóðarinnar.`` Enn fremur segir í ályktun búnaðarþings: ,,Öfgar leiða hvarvetna til ills, en aftur hverfur lygi þá sönnu mætir.``