Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegur forseti. Hafi mönnum tekist þegar svarað var síðustu fsp. að stofna til tiltölulega almennra umræðna býður mér í grun að það væri einnig hugsanlegt hér. Ég ætla að halda mig við að reyna að svara spurningum hv. fyrirspyrjanda í þröngum skilningi. Spurt er í fyrra lagi:
    ,,Mun landbrh. beita sér fyrir því að unnið verði beitarþolsmat, byggt á traustum vísindalegum grundvelli, á öllum afréttum landsins?``
    Svarið við því er bæði já og um leið að auðvitað er verið að vinna að því. Það er sífellt verið að reyna að endurbæta aðferðir og mér er það ekkert feimnismál og góðum vísindamönnum á ekki að vera það neitt feimnismál að viðurkenna að þær aðferðir sem menn hafa notast við hafa verið ýmsum takmörkunum háðar. Við skulum einnig binda vonir við að það séu framfarir í þessari grein eins og ýmsum öðrum vísindagreinum og nýjar aðferðir séu að koma til sögunnar.
    Það er mjög mikilvægt að menn þekki þau óvissumörk sem tölulegu mati á beitarþoli eru sett. Það hefur kannski nokkuð á skort. Það má hins vegar ekki rugla því saman við það hvort einhver tiltekin aðferð sé vísindaleg eða miður vísindaleg. Aðferðir geta verið í hæsta máta vísindalegar þó að þær séu takmörkunum háðar. Spurningin snýst í raun fremur um hversu haldgóð eða nákvæm þau vísindi eru sem menn hafa á valdi sínu. Þessa umræðu þekkja menn mjög vel, m.a. úr vinnu og mati sérfræðinga Hafrannsóknastofnunar á stærð fiskstofna og nægir held ég að vísa til þess dæmis. Þar hafa menn á síðustu árum verið að endurbæta eldri aðferðir, taka upp nýjar og menn hafa viðurkennt að þær aðferðir sem áður var beitt eru takmörkunum settar, sbr. tiltölulega nýlega skýrslu Hafrannsóknastofnunar þar sem ítarlega var fjallað um eldri rannsóknaraðferðir og þær nýjar sem Hafrannsóknastofnun og sérfræðingar hennar eru nú að beita. Það ber síður en svo vott um slæleg vísindi. Þvert á móti ber það vott um lifandi vísindastarf og vísindastarf í þróun að þess sé getið að unnið sé að því að betrumbæta vísindaaðferðir til að ná fram betri niðurstöðum.
    Ég tel og leyfi mér að fullyrða að á Rannsóknastofnum landbúnaðarins, hjá Landgræðslu ríkisins og þeim aðilum öðrum sem að þessum málum eru að vinna sé lifandi áhugi á því að betrumbæta vinnuaðferðir og m.a. bera sig saman við erlenda sérfræðinga, þá sem fremst standa á þessum sviðum. Það er almenn niðurstaða manna, þeirra sem við gróðurrannsóknir og beitarþolsútreikninga hafa unnið, ekki bara á Íslandi heldur víðast hvar í heiminum, að það sé sífellt að koma betur og betur í ljós að þar sé um erfiðara, flóknara og samsettara viðfangsefni að ræða en menn höfðu áður gert sér grein fyrir þar sem fleiri óvissuþættir eða fleiri áhrifavaldar koma inn í mat á niðurstöðum, svo sem eins og veðurfar og fleira og fleira sem ég hef ekki tíma til að nefna hér.
    Ég leyfi mér að segja að eftir á að hyggja tel ég

að skynsamlegt hefði verið og æskilegt að nota niðurstöður um reiknað beitarþol með skýrari fyrirvörum um þau óvissumörk sem þeim niðurstöðum eru sett og því miður hefur það viljað brenna við að menn hafi ruglað saman annars vegar reiknuðu beitarþoli miðað við tilteknar gefnar forsendur og hinu eiginlega beitarþoli landsins eins og það er á hverjum tíma að teknu tilliti til veðráttu og annarra aðstæðna.
    Þá er svar við síðari fsp., ef ég má leyfa mér að koma því að í örstuttu máli, þar sem spurt er hvort ráðherra hyggist beita sér fyrir könnun óháðra aðila á starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins og annarra stofnana á þessu sviði. Ég sé nú ekki að það sé mjög auðvelt að koma því við né að það sé kannski vænlegasta aðferðin í þessum efnum. Og ég spyr þá: Hverjir ættu að vera þeir óháðu aðilar sem ættu að taka til könnunar og gera úttekt á starfsemi Rannsóknastofnunar landbúnaðarins, Landgræðslunni og öðrum þeim aðilum sem að þessu hafa verið að vinna? Ég kem í fljótu bragði ekki auga á að það gætu þá orðið aðrir en erlendir aðilar og tel að jafnvel slíkum aðilum yrði mikill vandi á höndum að gera slíka úttekt vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem íslenskir vísindamenn vinna við að þessu leyti. Ég tel miklu vænlegra og fyrir því mun ég reyna að beita mér að þessar stofnanir auki samstarf sitt og reyni að leysa þau ágreiningsmál og þá erfiðleika sem vissulega hafa verið uppi í samstarfi ýmissa aðila á þessu sviði og tileinka sér nýjustu og bestu vísindalegar vinnuaðferðir, fara í læri hjá þeim stofnunum erlendum sem fremst standa á þessu sviði o.s.frv. Ég er því frekar á því að reyna að beita mér fyrir slíkum aðgerðum en setja upp einhvern rannsóknarrétt yfir Rannsóknastofnun landbúnaðarins, Landgræðslunni eða öðrum slíkum aðilum. Ég held að það þjóni ekki neinum sérstökum tilgangi. Mönnum kunna að hafa orðið þar á mistök, en þá er að bæta úr því og laga það. Það verður að mínu mati ekki gert með einhverjum rannsóknarrétti heldur fremur með því að reyna að aðstoða þær stofnanir, m.a. með því að skaffa þeim það fjármagn sem til þarf til þess að þjóna betur sínum tilgangi.