Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Það hefur komið í ljós í umræðum um fyrirspurnir í dag að tíminn er afstætt hugtak, einkum þegar hann er ekki mældur á klukku, og ég mun gera örstutta athugasemd í ljósi þess að hann er afstæður, þetta tímamat er afstætt.
    Það er líka afstætt hvað kemur út úr rannsóknum. Það fer eftir forsendunum sem þær eru unnar eftir. Það á við um beitarþolsrannsóknir, mælingar á gróðri lands. Niðurstöður verða ekki fullkomnari en þær aðferðir sem beitt er og þær forsendur sem notaðar eru við matið. Það á ekki að þurfa að koma neinum á óvart þó að það þurfi að endurskoða slíkar aðferðir í ljósi reynslu. Það er engin niðurlæging fyrir vísindin þó að það þurfi að gera. Og það er mjög virðingarvert ef þær stofnanir sem hlut eiga að máli lýsa því yfir, eins og gerst hefur á þskj. 569 sem svar við fsp., að það standi til og sé verið að vinna að því. Ég held að það sé engin ástæða til að væna þá menn sem hafa unnið að gróðurfarsrannsóknum og mælingum á beitarþoli um að hafa kastað hendi til þeirra athugana. Hitt er annað mál að það skortir vafalaust á að samræmis hafi verið gætt og það skortir á að fjármagn hafi verið veitt til þessarar starfsemi svo sem vert væri. Þar vantar mikið á og þannig liggur það fyrir að niðurstöður hafa legið í skúffum um ár og jafnvel áratugi á beitarþolsmati og það vantar kortagrunn yfir landið vegna ónógra fjárveitinga í þennan undirstöðuþátt til þess að hægt sé að framreiða í aðgengilegu formi niðurstöður.
    Það er mikil nauðsyn á, virðulegur forseti, að úr þessum málum verði bætt og Alþingi á að hugsa til þess þegar verið er að afgreiða fjárlög að taka á þeim þáttum sem að Alþingi snúa sem fjárveitingavaldi til að bæta aðstöðu til þessara mála. ( EgJ: Við höfum margoft gert það, Hjörleifur.)