Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég gæti tekið undir það sem síðasti ræðumaður sagði að mestu leyti, en ég held að það sé ekki hægt að líta fram hjá þeirri staðreynd að Rannsóknastofnun landbúnaðarins hefur misst traust bænda og ýmissa annarra, því miður. Þessi vísindagrein er þannig að það er mjög erfitt að fá réttar niðurstöður vegna þess að það sem grípur mjög inn í er hvernig veðurfar er á hverjum tíma á því landsvæði sem er skoðað. Ég held að lausnin á þessu sé sú að færa rannsóknarmenn meira út á hinn rétta vettvang, þ.e. út í landshlutana, þannig að þeir geti haft meira samband við þá sem lifa og starfa og hafa reynslu af breytingum á hverju svæði. Ég held að þá muni vera hægt að sætta sjónarmið og það muni koma annað út en nú liggur fyrir og eins og umræðan hefur farið fram um þessi málefni. Þeir sem ferðast um landið vita þetta. Og spurningin er alltaf: Hvað er vísindi? Hverjir eru vísindamenn? Eru það ekki þeir sem prófa?