Beitarþolsmat og beitarþolsrannsóknir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Guðni Ágústsson):
    Hæstv. forseti. Ég þakka hæstv. ráðherra svar hans þó honum tækist reyndar það ótrúlegasta því að ræða hans var eins og segir í Biblíunni: Já, já og nei, nei.
    En um þetta vil ég þó segja að fram kom skilningur og góður vilji í máli ráðherra og ég vænti þess að hann reyni eftir fremsta megni að gera upp þann ágreining sem nú ríkir.
    Það er vissulega alvarlegt, eins og hér hefur komið fram og hefur komið fram í ályktun búnaðarþings, að það er djúp gjá á milli þess sem oft kemur frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins annars vegar og hins vegar frá Landgræðslu ríkisins og landnýtingarráðunaut Búnaðarfélags Íslands. Ég sé ekki annað en ráðherrann hefði getað fundið sér menn sem hefðu reynt að rannsaka þennan ágreining eins og reyndar búnaðarþing biður um. Nóg er til af hæfu fólki og í því hefði ekki verið fólgin hin minnsta niðurlæging fyrir Rannsóknastofnun landbúnaðarins.
    Ráðherrann tók töluverðan tíma í að minnast á Hafrannsóknastofnun. Fyrst hann kemur inn á hana hygg ég að benda megi á að Hafrannsóknastofnun kemur iðulega með hagnýtar tölur um það magn af fiski sem veiða má. Hvað gerðist ef Hafrannsóknastofnun segði eins og Rannsóknastofnun landbúnaðarins gerir iðulega: Ég hef engar tölur. Það verða aðrir að koma með þær. Mundu hv. alþm. sætta sig við slíkt? Ég er hræddur um að fram kæmi krafa um að rannsókn færi fram á þeirri stofnun.
    Bændur hafa iðulega beðið Rannsóknastofnun landbúnaðarins um tölur. Það hefur gerst í deilumáli t.d. í landnámi Ingólfs. Það hafa liðið þrjú og fjögur ár og tölur hafa ekki borist. Þó ganga menn hart fram og eru komnir með lagafrumvörp inn í þetta þing til að setja sérstök lög á lítinn minnihlutahóp.
    Ég veit ekki hvort ég á að fara að eyða orðum á þann æsing sem kom fram í máli hv. þm. Árna Gunnarssonar. Hann reyndi enn á ný að setja þessa umræðu á hið óskynsamlega plan.
    Ég vil að lokum vitna í búnaðarþing. Búnaðarþing segir í þessu máli og það er auðvitað fólgin mikil ásökun í því: ,,Af hálfu RALA [þá eru þeir að ræða um þessar umræður sem fram hafa farið] er því haldið fram, eflaust með réttu, að mikils misskilnings gæti í þessu máli. Það hafi frá upphafi átt að vera ljóst að beitarþolsmatið sem afhent var væri ekki nothæft sem grundvöllur beitarstjórnar nema að takmörkuðu leyti. Enn fremur að þjóðfélagsumræðan byggist á misskilningi að því leyti sem hún vitni til starfsmanna RALA. Skal það ekki vefengt, en umhugsunarefni er það fyrir stofnunina hvort hún þarf ekki fremur að láta aðra túlka sitt mál en þá sem svo mjög misskiljast.``
    Þetta eru stór orð og þau segja það að eitthvað er að og ég treysti hæstv. ráðherra til þess að hlusta bæði á þá gagnrýni sem kemur frá búnaðarþingi og hefur komið frá landgræðslustjóra og bændum á ýmsar þær tölur og svör sem hafa komið frá Rannsóknastofnun landbúnaðarins. En mikilvægast er að þær stofnanir sem vinna og eiga að vinna í þágu

ákveðinna atvinnuvega eins og rannsóknastofnunin í þágu landbúnaðarins hafi tiltrú þeirrar stéttar sem hún er að vinna fyrir. Ég treysti ráðherra til þess á næstu vikum og mánuðum að ná árangri í því að þessar stofnanir allar tali einni tungu. Það er mikilvægt bæði fyrir landbúnaðinn og þjóðina í heild.