Vegaframkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Það hefur komið fram áður í athugunum sem gerðar hafa verið af hálfu Vegagerðar ríkisins, vegamálaskrifstofunnar, að hér á þéttbýlissvæðinu er Arnarneshæðin á Hafnarfjarðarvegi sá hluti á vegakerfinu þar sem flest slys eiga sér stað. Það er þess vegna afar þýðingarmikið að á þeim vegi verði gerðar breytingar.
    Samkvæmt núgildandi vegáætlun, þ.e. fyrir árið 1989, var gert ráð fyrir að það yrðu hafnar framkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi við Arnarneshæðina mjög tímanlega og þá unnið að útboðum og í vegáætluninni séð fyrir fjármagni til þess að hefja framkvæmdir hið allra fyrsta. Útboð hafa ekki farið fram og þess vegna hef ég leyft mér að spyrja hæstv. samgrh.:
    ,,Hvenær má búast við útboði á vegaframkvæmd á Hafnarfjarðarvegi við Arnarneshæð?``