Vegaframkvæmdir á Hafnarfjarðarvegi
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svarið. Það er ljóst mál af því sem ráðherrann sagði að útboðið er nánast tilbúið hjá Vegagerð ríkisins. Við erum með til afgreiðslu í þinginu endurskoðaða vegáætlun fyrir árin 1989--1990 og árin tvö þar á eftir. Eins og fram kom hjá ráðherra í hans ræðu þegar vegáætlun var til fyrri umræðu er gert ráð fyrir sérstakri fjárveitingu í svokölluð stórverkefni og einmitt þar í fólgið að sinna þeim sem stórum verkefnum á höfuðborgarsvæðinu eins og hann réttilega gat um. Ég sagði við þá umræðu að hér væri verið að framkvæma að mínum dómi skiptingu á vegafé sem ætti fullkominn rétt á sér og hefði reyndar áður verið um rætt í tíð minni sem samgrh. og forvera míns þar áður. Þess vegna er niðurstaða þessarar fsp. og svars það að þeim mun fyrr sem við ljúkum afgreiðslu vegáætlunar, þeim mun fyrr verði hægt að ganga frá því útboði sem hér er talað um.