Sundurliðun símareikninga
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Matthías Á. Mathiesen):
    Virðulegi forseti. Af svörum hæstv. ráðherra mátti heyra að á þessu máli hefur orðið frestun af þeim ástæðum sem hann gaf skýringar á frá árinu 1988 yfir til 1989 og því ekki að búast við því að það verði fyrr en á næsta ári sem hægt verði að byrja á því að veita símnotendum þá þjónustu sem hér um ræðir. Aðalatriðið er að það er unnið að þessu. Það hefur dregist, en við skulum vona að það komi betri tíð með blóm í haga þannig að hægt verði að koma þessum málum þannig fyrir að notendur síma geti fengið þær upplýsingar um notkun sína sem eðlilegt er.