Jöfnun símagjalda
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. fyrir svör hans. Ég fagna því að hann hafi nú þegar gert ráðstafanir til að stíga skref og vonandi verulegt skref í átt til að jafna símakostnað. Það er áríðandi vegna þess líka að 80--90% af allri þjónustu eru hér og landsbyggðin verður að hafa samband mikið í gegnum síma við þjónustuaðila og stjórnvöld. Fyrst við höfum byggt þetta þjóðfélag á þann hátt sem við höfum gert er áríðandi að jafna þennan kostnað.
    Það er eitt sem mig langar til að spyrja hæstv. samgrh. að. Er áætlun um það hvenær landssímakerfið er komið í það ástand að það sé hægt að ná þessu réttlætismáli fram?