Jöfnun símagjalda
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að stefna að því að jafna þann kostnað sem nú er á símnotkun í landinu og er ástæða til að minna á að það hafa verið stigin skref í þá átt á undanförnum árum, m.a. með því að jafna símkostnað innan svæðisnúmera sem vitaskuld er þýðingarmikill áfangi í rétta átt.
    Það er fagnaðarefni, sem fram kom í máli hæstv. samgrh., að það skuli vera hans stefnumál að jafna símkostnaðinn strax og tæknilegar aðstæður leyfa. En það er annað mál sem ástæða er til að vekja athygli á og veldur líka kostnaði í símanotkun landsbyggðarfólks og það er hversu hörmulega er komið fyrir símakerfinu í landinu sem engan veginn þolir það álag sem núna er á því. Vaxandi símanotkun og vaxandi notkun fjarskiptatækja gerir að verkum að klukkutímum saman á degi hverjum er nánast ógerningur að hringja utan af landi til Reykjavíkur. Ég held að sá óbeini kostnaður sem fellur jafnt á fólk og fyrirtæki sé ekki síðri en hinn sem felst í mismunandi kostnaði við að hringja innan svæðis og milli svæða.