Flutningsgjald á vörum innan lands
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Stefán Valgeirsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. samgrh. svör hans. Í svari hans kom fram að samgrn. væri að skoða þessi mál og hvernig væri hægt að koma þeim fyrir þannig að flutningskostnaðurinn lækkaði. En í sjálfu sér var ekki verið að spyrja um það í þessari fyrirspurn. Það var fyrst og fremst verið að spyrja um söluskattinn þó að kannski megi segja að eins og orðanna hljóðan er í fsp. megi leggja út frá henni eins og hæstv. ráðherra gerði. En hann ætti að geta haft einhver áhrif á hæstv. fjmrh. í þessu efni. Ég minni á að í stjórnarmyndunarviðræðunum var mjög mikið hnykkt á þessu máli. Ég verð fyrir miklum vonbrigðum, ég verð að segja það, ef ekki er tekið á svona auðsjáanlegu réttlætismáli. Hvar er þá frekar hægt að jafna? Ég vil að það komi fram og viðurkenni að það var stigið stórt skref í jöfnunarátt í sambandi við kjarasamningana. Þar var farið í fyrsta sinn inn á leið sem er búið að tala um í mörg ár. En það er ekki nóg. Þessi atriði þarf að athuga betur. Í þessari sömu grein á 9. bls. er talað um jöfnun á skólagöngu og ég þakka menntmrh. fyrir þær upplýsingar sem liggja fyrir um að hækka dreifbýlisstyrkinn sem komu fram að mig minnir í gær eða fyrradag á Alþingi.
    En ég ítreka það: Ég skora á hæstv. samgrh. og menntmrh., það eru þeir einu ráðherrar sem hér eru, að beita sér fyrir því að við þetta verði staðið.