Úttekt á starfsemi fræðsluskrifstofa
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Fyrirspyrjandi (Júlíus Sólnes):
    Virðulegur forseti. Samkvæmt bréfi sem mér hefur borist í hendur kemur fram að 18. febr. 1987 skipaði þáv. menntmrh. starfshóp til að láta fara fram heildarúttekt á stöðu fræðsluskrifstofa landsins og samskiptum þeirra við menntmrn. Markmið þessarar úttektar var að fá heildarmynd af starfsháttum og samskiptum þeirra er með fræðslumál fara í fræðsluumdæmunum og gera enn fremur úttekt á fjármálalegri stöðu einstakra fræðsluumdæma. Ráðuneytið fól þeim Helga Ólafssyni og Kristjóni Kolbeins að annast þessa úttekt og munu þeir hafa skilað skýrslu þar að lútandi til menntmrn. Það vill svo til að ég hef aðeins séð titilblað þessarar skýrslu, en þar segir: ,,Skýrsla til menntamálaráðherra. Fræðsluskrifstofur, staða þeirra og samskipti við menntamálaráðuneytið. Reykjavík 15. júní 1987.``
    Ég er sannfærður um að ef þessi úttekt hefur tekist vel hljóta að vera í þessari skýrslu mjög merkileg gögn sem væri auðvitað ástæða til fyrir alþingismenn að kynna sér. Þegar ég frétti að formönnum fræðsluráða um landið allt hefði ekki verið gefinn kostur á því að kynna sér efni þessarar skýrslu ákvað ég að flytja þessa fsp. til að fá svör við því hvort hæstv. menntmrh. mundi beita sér fyrir því að efni og innihald hennar yrði kynnt fyrir formönnum fræðsluráða og hvort hv. alþm. mundi einnig gefast kostur á að kynna sér efni hennar.