Reglur þingskapa um umræður um fyrirspurnir
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Hjörleifur Guttormsson:
    Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að lengja hér umræðu vegna þingskapa mikið, en ég gerði athugasemd fyrr á þessum fundi að því er ég taldi að gefnu tilefni. Ég hygg að hæstv. forseti hafi áttað sig á að ég hafði rétt til tveggja mínútna ræðutíma sem fyrirspyrjandi í annað sinn ( Forseti: Þriggja.) og einnig möguleika samkvæmt þingsköpum að gera síðan örstutta athugasemd ef óskað væri eftir þannig að athugasemd forseta studdist ekki við það sem kveðið er á um í 31. gr. þingskapa Alþingis.
    Nú ætla ég alls ekki að finna að því hér þó að reglur um þingsköp séu túlkaðar í rýmra lagi eftir því sem aðstæður bjóða. Ég vil aðeins ítreka að ég tel að það sé vandmeðfarið og það þurfi að gæta þess að eitt gangi þar yfir alla. Þingsköp byggja að nokkru leyti á hefðum, að öðru leyti á skrifuðum og skrásettum reglum og síðan meðferð hæstv. forseta á túlkun þingskapanna. Ég hef nokkrar áhyggjur af því, einfaldlega vegna takmarkaðs tíma sem þingið hefur til ráðstöfunar, að við missum ákveðna þætti eins og fyrirspurnatíma úr böndunum sem verði til þess að ekki sé hægt að koma við sem skyldi svörum við fsp. sem fyrir liggja á þeim tíma sem til þess er ætlaður eða þá að langur fyrirspurnatími bitni á öðrum störfum í sameinuðu þingi. Sú var ástæða mín fyrir ábendingu fyrr á þessum fundi.
    Ég vek athygli á því að í starfsáætlun Alþingis sem hæstv. forseti lagði hér fram í þingbyrjun til fyrirmyndar er á baksíðu prentað yfirlit um reglur þingskapa, m.a. varðandi fyrirspurnir. Þar kemur fram sú áminning til þingmanna að fyrirspyrjandi hafi ræðutíma tvisvar sinnum tvær mínútur. Ráðherra ( Forseti: Þrjár.) fimm mínútur tvisvar. Ja, það stendur tvær mínútur á þessu yfirliti sem fyrirspyrjandi hafði og er það held ég til samræmis við það sem er í ( Forseti: Það er rétt hjá hv. þm.) 31. gr. Og síðan er þar skráður c-liður: ,,Aðrir þingmenn, stutt athugasemd (ein mínúta).`` Ég hygg að það séu viðmiðunarmörk sem séu sett til áminningar, en um þetta er ekkert skráð í þingsköpunum sjálfum og því muni þetta sett innan sviga.
    Ef við ætlum að halda þessar reglur þurfa menn að sameinast um það, bæði þeir sem stjórna fundum og við þingmenn, að leitast við að verða við óskum forseta. Það er síst af öllu til þess að grípa fram í störf forseta þingsins að ég leyfði mér fyrr á fundinum að minna á þetta. Ég hef áhyggjur af því ef umræða um eina fyrirspurn fer upp í klukkutíma eða nærri því, eins og ég hygg að hafi gerst í morgun, vegna þess að mörg mál liggja fyrir. Það getur ekki verið matsatriði hæstv. forseta hvort mál verðskuldi lengri orðræður þingmanna eða ekki. Þar hlýtur klukkan að eiga að skera úr fyrst og fremst.