Yfirlýsing um stofnun nýs þingflokks
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Ingi Björn Albertsson:
    Hæstv. forseti. Ég þakka hv. 1. þm. Reykv. fyrir hans árnaðaróskir til handa þessum nýja þingflokki.
    Ég verð að segja það að málflutningur þingflokksformanns Borgfl. var kostulegur þá loksins að það heyrðist eitthvað í blessuðum manninum. Hér erum við búnir að vera að ræða vandamál hans þingflokks í tvo mánuði og það er í fyrsta sinn í dag sem það heyrist stuna úr blessuðum manninum. Og hvað gerir hann þá? Þá fer hann náttúrlega með rangt mál. Hann segir ekki nema hálfan sannleika.
    Það sem skeði í gær er það að við fengum í þriðja sinn drög að ályktun frá formanni flokksins sem ég er hér með í höndunum. Að vísu var hann búinn að strika aðeins út úr frá annarri ályktun ákveðinn kafla um Albert Guðmundsson, en við skulum láta það liggja á milli hluta. En þegar þingflokksformaður Borgfl. fer svo að lesa skilyrði þau sem við sendum inn á þingflokksfund Borgfl. í gær les hann fyrsta skilyrðið sem stendur hér ritað með hendi formanns Borgfl. Það var hann sem setti þetta á blað. Síðan setur hann hér neðst: kross, stefna hennar í skattamálum. Hann var tilbúinn að taka það líka inn, hv. þingflokksformaður. Undir þetta báðum við svo flokkinn að skrifa og það ekki að ástæðulausu.
    Síðan kemur bókunin sem hann segir að sé brot á stjórnarskrá lýðveldisins sem var óskað að yrði borin upp til samþykktar. Það var þá hægt að fella hana. Það hafði ekkert með skilyrðin að gera, nákvæmlega ekki neitt. Hins vegar er sú stefnuskrá sem flokkurinn býður fram í kosningum skoðun okkar sem stöndum að henni. Það er það sem við erum að berjast fyrir, að það sé staðið að þeim skoðunum sem við bjóðum okkur fram fyrir en ekki að við förum inn á þing undir fölsku flaggi.
    Ég tek undir orð hv. þm. Hreggviðs Jónssonar að vinstri flokkunum á Alþingi hefur fjölgað um einn.