Yfirlýsing um stofnun nýs þingflokks
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Ólafur Þ. Þórðarson:
    Herra forseti. Um leið og ég óska nýjum þingflokki velfarnaðar og minni á að ekki er nýtt að foringjar hafi risið upp á Vesturlandi get ég ekki látið hjá líða að kveinka mér ögn undan því að stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar og hún sem heild er sökuð um að hafa stolið fjórum þingmönnum. Mér finnst þetta nokkuð stór áburður og var satt best að segja hissa á hæstv. forseta að líða þetta hér úr ræðustól. En ég verð aftur á móti að játa það að þegar ég hlustaði á ræðu hv. 1. þm. Reykv., sem erfði 1. sætið á framboðslista Sjálfstfl. eftir að hafa mátt búa við það í prófkjöri að Albert Guðmundsson hafði hlotið það sæti, skildi ég vissulega vel fögnuð hans. En óneitanlega minnti hann dálítið á kvæði eftir Högna Egilsson sem heitir ,,Verndarinn``. Með leyfi forseta, af því að það er mjög stutt, hljóðar það svo:
Hann fæddi hana á krásum,
og færði henni gjafir
í fjörutíu daga
og fjörutíu nætur.
Át hana því næst í einu lagi,
hugsandi þó,
því áður voru þau orðin dús,
---
hann var köttur, en hún var mús.