Yfirlýsing um stofnun nýs þingflokks
Fimmtudaginn 13. apríl 1989

     Júlíus Sólnes:
    Hæstv. forseti. Örstutt að lokum þar sem hér hefur komið fram alvarleg ásökun um það að það sé búið að stela mér. Ég hef reyndar ekki orðið var við það að mér hafi verið stolið. Ég er hérna a.m.k. enn þá. Það er ekki búið að biðja um lausnargjald fyrir mig, svo mikið er víst. En ég vil af því tilefni fá að lýsa því yfir að ég sem formaður Borgfl. fordæmi þá efnahags- og skattastefnu sem sú ríkisstjórn sem nú situr hefur beitt sér fyrir. Ég tel að hún sé að stefna þjóðinni í algert skipbrot í atvinnu- og efnahagsmálum. Ég mun beita mér af alefli gegn þessari stefnu og leita liðsinnis minna þingmanna við að gera það hér á hinu háa Alþingi. Það skal ekki standa á mér. Af því tilefni bið ég tvo hv. þm., Hreggvið Jónsson og Inga Björn Albertsson, velkomna til samstarfs við okkur um það meginmarkmið hvenær sem er.