Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um heimild til handa forsetum Alþingis að ganga til samninga um kaup á Hótel Borg. Í þessu sambandi tel ég rétt að víkja aðeins að því sem áður hefur gerst og veit að húsakosti Alþingis. Það væri langt mál að greina frá öllu sem í þeim efnum er frásagnarvert, en hér er ekki tími til þess.
    Fyrr á árum, á undanförnum áratugum voru mál þessi þráfaldlega til umræðu hér á Alþingi. Þær umræður fjölluðu oft og tíðum ekki einvörðungu um húsakost Alþingis heldur og staðsetningu nýs alþingishúss, heimkynni Alþingis. Fram komu þá ýmsar hugmyndir um að færa Alþingi frá þeim stað þar sem það nú er. Hins vegar var á sama tíma viðhöfð sú fyrirhyggja að kaupa fasteignir í næsta nágrenni við Alþingishúsið. Þannig hefur nú Alþingi umráðarétt yfir öllu svæðinu milli Kirkjustrætis og Vonarstrætis og Templarasunds og Tjarnargötu nema Oddfellow-húsinu. Samt sem áður var um að ræða nokkra óvissu um framvindu þeirra mála sem varða húsakost og staðsetningu Alþingis. Þetta kom sér illa og var raunar óviðunandi.
    En árið 1981 átti að vera bundinn endi á þessa óvissu. Þá samþykkti Alþingi ályktun um húsakost Alþingis. Þetta var gert í tilefni af 100 ára afmæli Alþingishússins eins og hæstv. forseti sameinaðs þings hefur þegar skýrt frá hér áðan.
    Við alþingismenn þekkjum hverjum vanda húsakostur Alþingis veldur og það þarf ekki að fjölyrða um það. Til að mæta þessum vanda var um tvo kosti að ræða. Annars vegar að reisa nýtt hús, nýtt alþingishús, hins vegar að efna til framkvæmda sem gerðu mögulegt að nota núverandi Alþingishús til frambúðar. Hæstv. forseti sameinaðs þings vék einnig að þessu atriði í sinni ræðu. Síðari kosturinn var valinn.
    Í þingsályktun frá 1981 var mælt svo fyrir að efnt skyldi til samkeppni um gerð og skipulag nýbyggingar fyrir starfsemi þingsins. Skyldi samkeppnin við það miðuð að heimkynni Alþingis verði áfram í núverandi þinghúsi svo og byggingum í næsta nágrenni þess. Framvindu þessara mála þekkja allir hv. alþm. og ég skal ekki fara að rekja hana hér. Það var grundvallaratriði, og á það legg ég áherslu, að fyrirhuguð nýbygging Alþingis yrði í þeirri nálægð og þeim tengslum við Alþingishúsið að nánast væri sem ein bygging þar sem rúmaðist öll sú starfsemi sem tilheyrði einu þjóðþingi. Þetta var raunar forsendan fyrir því að hægt sé með góðu móti að nota núverandi Alþingishús til frambúðar. Það var þetta sem samkeppni um nýbygginguna miðaði að. Þannig var sú teikning útfærð sem samkeppnin skilaði.
    Með hliðsjón af forsögu og eðli þeirra mála sem varða húsakost Alþingis kom það nánast spánskt fyrir sjónir þegar hæstv. forseti sameinaðs Alþingis lýsti þeirri skoðun yfir fyrr í vetur að nú skyldi hætt við þær ráðagerðir sem taldar höfðu verið nauðsynlegar til þess að hægt væri að nota núverandi Alþingishús til frambúðar svo að hæfði og samboðið væri

löggjafarþingi þjóðarinnar. Í staðinn fyrir nýbyggingu skyldi koma Hótel Borg sem af augljósum ástæðum getur ekki svarað þeim þörfum sem nýbyggingu er ætlað. Það ber upp á fyrir tilviljun að Hótel Borg er allt í einu til sölu. Þá skal í einu vetfangi hverfa frá því og kasta fyrir róða ráðagerðum sem Alþingi hefur mótað eftir langa og ítarlega umfjöllun um málið. Í sannleika sagt komu fjölmiðlayfirlýsingar hæstv. forseta sameinaðs þings eins og skollinn úr sauðarleggnum. En hér og nú eru kaup á Hótel Borg lögð fyrir á allt annan veg.
    Ég skil greinargerð þeirrar þáltill. sem við nú ræðum, og enginn vafi er á yfirlýsingu hæstv. forseta hér áðan í sinni ræðu, að það er gert ráð fyrir að kaup á Hótel Borg geti ekki verið frambúðarlausn fyrir Alþingi, heldur séu hugsuð sem bráðabirgðalausn meðan nýbyggingarmálið sé í biðstöðu eins og það er orðað. Þetta er allt annað mál og kann að koma til athugunar. Og ég vil sérstaklega fagna yfirlýsingu og því sem fram kom í ræðu hæstv. forseta sameinaðs þings hér áðan að það er ekki gert ráð fyrir að hverfa frá hugmyndum um nýbyggingu Alþingis í þeim anda sem þál. frá 1981 gerir ráð fyrir. Það er mjög þýðingarmikið að þetta liggi alveg ljóst fyrir og það liggur ljóst fyrir í ræðu hæstv. forseta sameinaðs þings.
    Hér eru kaup á Hótel Borg lögð fyrir á allt annan veg en að þau komi í staðinn fyrir það sem áður var ráðgert um framtíðarhúsakost Alþingis. Að mínu viti er það hins vegar ekki fyrir fram gefið að rétt sé að festa kaup á Hótel Borg þó eigi að kallast til bráðabirgða, heldur þvert á móti. Er þar fyrst að taka að Alþingi hefur komið sér fyrir í bráðabirgðahúsnæði sem miklu hefur verið kostað til. Mér þykir meir en vafasöm sú ráðstöfun að kosta nú miklu til að koma upp bráðabirgðaaðstöðu til þess að taka við af bráðabirgðaaðstöðu.
    Hæstv. forseti, ég er að ljúka máli mínu. Ég get ekki varist því að ég tel að kostnaður við breytingu og viðgerðir á Hótel Borg sé allt of lágt áætlaður ef mynd á að verða á til að svara sérþörfum Alþingis.
    En meginástæðan fyrir því að ég geld varhug við kaupum á Hótel Borg, þó að til bráðabirgða sé kallað, er sú að ég ætla að það muni tefja um ófyrirsjáanlegan tíma framkvæmdir við að koma á til frambúðar þeirri skipan á
húsakost Alþingis sem brýn þörf krefur og hæfir löggjafarþingi þjóðarinnar. Hæstv. forseti sameinaðs þings hefur áhyggjur af því og segir, og það er sagt í grg., að efnahagslegar ástæður í þjóðfélaginu geri ekki mögulegar framkvæmdir við framtíðarbyggingu fyrir Alþingi. Ég skal ekkert gera lítið úr þeim efnahagsörðugleikum sem eru í dag, en ég ætla að við megum ekki gera ráð fyrir að þeir verði svo mörg ár að við þurfum að tefja þetta mál um framtíðarbyggingu Alþingis af þeim orsökum. Þrátt fyrir allt gæti ég látið mér koma til hugar að efnahagsástandið væri ekki verra en svo, jafnvel þó að núverandi ríkisstjórn ætti einhverja lífdaga fyrir höndum, að það mundi vera mögulegt að greiða fyrir

teikningar af þessu húsi og það tekur tvö til þrjú ár að vinna það verk. Síðan gæti komið til framkvæmda og þá skulum við vænta þess að efnahagsástandið hafi breyst.